Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 08. september 2021 15:22
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Held það sé martröð að vera þjálfari í landsliði í dag"
Icelandair
Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsþjálfararnir.
Landsliðsþjálfararnir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings og sérfræðingur á RÚV í kringum landsleiki Íslands í þessari landsleikjatörn, ræddi við Hörð Snævar Jónsson í sjónvarpsþættinum 433 á Hringbraut í gær.

Þriðji leikurinn í landsleikjaglugganum er í kvöld þegar Ísland mætir Þýskalandi á Laugardalsvelli klukkan 18:45. Í fyrsta leik gluggans tapaði Ísland gegn Rúmeníu og íslenska liðið gerði svo jafntefli gegn Norður-Makedóníu á sunnudag.

Íslenska landsliðið var til umræðu í fyrri hluta þáttarins. „Það er hægt að finna til með landsliðsþjálfurunum. Þeir hafa örugglega ætlað í einhverjar kynslóðabreytingar á liðinu en þær eru að gerast miklu hraðar en nokkur maður átti von á," sagði Hörður. Arnar Þór Viðarsson er landsliðsþjálfari og Eiður Smári Guðjohnsen er aðstoðarlandsliðsþjálfari.

Það er ekki langt síðan að landsleikjagluggunum var breytt úr því að spila tvo keppnisleiki í það spila þrjá. Það gerðist fyrst síðasta haust þegar Ísland lék í umspili fyrir EM og svo tvo leiki í Þjóðadeildinni. Leikirnir eru fleiri en dagarnir þar sem hópurinn er saman eru jafnmargir. Í tilfelli íslenska landsliðsins þá vantar marga öfluga leikmenn og hafa yngri leikmenn þurft að spila stærra hlutverk en áður.

„Ég held að það sé martröð að vera þjálfari í landsliði í dag. Ég held þú fáir fleiri leiki en æfingar og maður veltir fyrir sér hvaða skilaboð þú átt að koma til leikmanna, sérstaklega þegar þú ert að spila með annað leikkerfi. Þetta hljómar kannski eins og drastískar breytingar að fara úr 4-4-2 í 4-5-1 en trúðu mér, þetta eru stórar breytingar," sagði Arnar.

„Við sjáum það í því að við erum mjög óöruggir í því hvernig við ætlum að pressa og við erum mjög opnir á miðsvæðinu. Uppspilið hefur kannski gengið hvað best þegar við náum tökum á boltanum af því að þetta leikkerfi bíður upp á það að við séum opnir og gerum völlinn stóran en inn á milli erum við mjög viðkvæmir þegar við missum boltann."

„Við sjáum það líka á föstum leikatriðum, bæði sóknar- og varnarlega, þetta er mjög tricky örugglega að þjálfa lið undir svona kringumstæðum, vera með svona fáar æfingar. Þetta er einhver balance á því að halda góða vídeófundi og labb á mili æfinga og þess að leikmenn þurfi bara að fatta hvað er í gangi,"
sagði Arnar.

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner