
Alexandra Jóhannsdóttir skoraði fyrsta landsliðsmark sitt í kvöld í 6-0 sigri á Lettlandi í undankeppni Evrópumótsins en hún fékk tækifæri í byrjunarliðinu.
Lestu um leikinn: Lettland 0 - 6 Ísland
Alexandra gerði fimmta mark leiksins um það bil tíu mínútum fyrir leikslok en hún hafði átt nokkrar tilraunir í leiknum áður en boltinn söng loksins í netinu.
„Mjög góð bara. Við vissum að við værum að fara í erfiðan leik þannig það var flott að ná þremur stigum úr leiknum," sagði Alexandra við Fótbolta.net í kvöld.
Íslenska liðið var með mikla yfirburði í leiknum og var hún sammála því.
„Ég myndi segja það miðað við aðstæður og svoleiðis þá fannst mér við rúlla yfir þetta lið þannig. Við vorum með yfirburði á öllum sviðum."
„Þetta er mikill skóli og geggjað að fá tækifæri til að sanna sig þannig það var flott. Ég var nokkuð ánægð og miðað við aðstæður þá var geggjað að ná inn mörkum. Ég var búin að fá nokkrar tilraunir og það var sætt að sjá hann í netinu."
Vallaraðstæður voru vægast sagt hörmulegar og eins og komið var inn á í viðtalinu þá var þetta hálfgerður mýrarbolti.
„Ég myndi segja það. Hvítu skórnir eru ónýtir."
Íslenska liðið er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki eins og Svíþjóð.
„Þetta er eitt skref af mörgum og það er bara að halda áfram. Þetta er ekki búið núna og eins og sést þá býr mikið í okkur, tökum þetta og förum alla leið," sagði hún í lokin.
Athugasemdir