banner
   fös 08. október 2021 11:10
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Hvort hann sé úrslitaleikur kemur ekki í ljós fyrr en síðar"
Icelandair
Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leiknum gegn Tékklandi 2018.
Úr leiknum gegn Tékklandi 2018.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson sat í gær fyrir svörum á fréttamannafundi í gær en landsliðshópurinn fyrir komandi leiki gegn Tékklandi og Kýpur í undankeppni HM var tilkynntur í gær.

Hér að neðan má sjá það sem Steini hafði að segja um andstæðinga liðsins á fundinum í gær.

Ísland tapaði gegn Hollandi í fyrsta leik sínum í riðlinum, 0-2 á heimavelli.

„Við erum að fara spila við Tékka og Kýpur. Tékkar eru eitt af þeim liðum sem koma til með berjast um allavega sæti í umspilinu um sæti á HM. Í síðustu undankeppni fyrir HM vorum við með Tékkum í riðli og gerðum jafntefli í báðum leikjunum, 1-1. Fyrir HM 2007 vorum við einnig með þeim í riðli þannig það er verk að vinna að vinna Tékka hér heima."

„Við sáum í markvörð Tékka spila með PSG gegn Breiðabliki. Tékkneska liðið samanstendur meiri partinn af leikmönnum sem spila með Sparta eða Slavia Prag. Svo eru 5-6 leikmenn sem spila með liðum í öðrum löndum, á fínu getustigi."

„Kýpur er nýr andstæðingur fyrir okkur, lið sem við höfum aldrei spilað við áður. Kýpur er lið sem við eigum að vinna og ætlum að vinna. Við gerum okkur grein fyrir því að þessir tveir leikir skipta miklu máli varðandi framhaldið, við viljum vera í þeirri stöðu að berjast um að komast í lokakeppni HM. Við lítum á þetta sem spennandi, krefjandi og gott verkefni til að halda þeirri vegferð áfram,"
sagði Steini.

Stilliru leiknum gegn Tékkum upp sem einhvers konar úrslitaleik?

„Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur, það er alveg ljóst og hann mun skipta okkur gríðarlega miklu máli. Hvort hann sé úrslitaleikur kemur ekki í ljós fyrr en eftir þessa átta leiki."

„Tékknenska liðið er sterkt lið, þær töpuðu í vítaspyrnukeppni gegn Sviss í umspilinu fyrir EM. Við gerum okkur grein fyrir því að við þurfum að eiga okkar besta leik til að vinna þennan leik, það er alveg ljóst."


Þegar þú ert búinn að gera upp leikinn gegn Hollandi, hvað er það helst sem þið þurfið að gera betur?

„Við þurfum að þora að vera framar á vellinum. Við féllum aðeins of mikið til baka í seinni hálfleik. Það er það sem við munum fara í. Við ætlum að þróa leik okkar á þann hátt að við þorum að vera með boltann, þorum að sækja og vera hátt uppi með liðið. Ég vil að við þorum að stýra leikjum, þorum að vera við sjálf inn á vellinum, óttast ekki neinn andstæðing og fara inn í leiki með það hugarfar hér eftir."

Er Tékkland orðið sterkara lið en Ísland í dag eða eru liðin hnífjöfn?

„Við erum á svipuðum stað. Tékkar eru í 27. sæti á styrkleikalista FIFA og við erum í 16. sæti. Það er ekki stórt bil þarna á milli. Ef ég man þetta rétt þá vann Ísland Þýskaland í Þýskalandi í sama glugga og liðið spilaði við Tékka í Tékklandi. Það fór gífurleg orka í leikinn gegn Þjóðverjum en svo náðist ekki alveg að fylgja því eftir gegn Tékkum."

„Í heimaleiknum, ef minni mitt er rétt, þá fannst mér liðið stýra leiknum ágætlega og fengu tækifæri í lokin til að klára leikinn. Það er stutt á milli í þessu og þú þarft að nota þá sénsa sem þú færð. Fótbolti er bara þannig og það tókst ekki í þetta skiptið,"
sagði Steini.

Sjá einnig:
Útskýrir breytingar á hópnum - Munda glímir við höfuðmeiðsl
Athugasemdir
banner
banner
banner