Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 09. janúar 2022 19:40
Brynjar Ingi Erluson
Ítalía: Mögnuð endurkoma Juventus gegn Roma - Þrjú mörk á sjö mínútum
Paulo Dybala skoraði fyrsta mark Juventus
Paulo Dybala skoraði fyrsta mark Juventus
Mynd: EPA
Rómverjar komust í 3-1 en misstu forystuna
Rómverjar komust í 3-1 en misstu forystuna
Mynd: EPA
Leikmenn Napoli fagna marki Andrea Petagna
Leikmenn Napoli fagna marki Andrea Petagna
Mynd: EPA
Luis Muriel skoraði tvö fyrir Atalanta
Luis Muriel skoraði tvö fyrir Atalanta
Mynd: EPA
26 mörk voru skoruð í fyrstu sex leikjum dagsins í Seríu A á Ítalíu en Juventus vann ótrúlegan endurkomusigur á Roma, 4-3, á meðan Atalanta kjöldró Udinese, 6-2. Sassuolo skoraði þá fimm mörk gegn Empoli.

Það tók Tammy Abraham ellefu mínútur að koma Roma yfir gegn Juventus. Jordan Veretout tók hornspyrnu beint á hausinn á Abraham sem stangaði boltanum í netið. Það kveikti aðeins í Rómverjum sem ógnuðu marki Juventus næstu mínúturnar áður en Paulo Dybala jafnaði.

Federico Chiesa fann Dybala rétt fyrir utan teiginn og lét argentínski sóknartengiliðurinn vaða í vinstra hornið og kom Rui Patricio engum vörnum við. Staðan í hálfleik, 1-1, en Rómverjar eflaust svekktir með að hafa tapað taktinum með jöfnunarmarki Dybala.

Það tók enga stund fyrir liðið að finna þann takt aftur því á 48. mínútu skoraði Henrikh Mkhitaryan. Heppnin var svolítið með honum en skot hans fyrir utan teig fór af Mattia de Sciglio og efst í vinstra hornið. Fimm mínútum síðar bætti Lorenzo Pellegrini við þriðja markinu eftir stórkostlega aukaspyrnu af 25 metra færi og Juventus í miklum erfiðleikum.

Það breyttist allt á 70. mínútu. Massimo Allegri gerði nokkrar breytingar og setti meðal annars Alvaro Morata sem átti sinn þátt í endurkomunni því hann lagði upp annað mark Juventus fyrir Manuel Locatelli sem skoraði af stuttu færi.

Aftur var Morata í boltanum er Dejan Kulusevski jafnaði nokkrum mínútum síðar. Juan Cuadrado átti fyrirgjöf og reyndi Morata skot úr teignum, boltinn datt fyrir Kulusevski sem jafnaði metin.

De Sciglio fullkomnaði frábæra endurkomu Juventus á 77. mínútu með marki eftir að Chris Smalling mistókst að hreinsa boltann úr teignum. De Sciglio nýtti sér það og lét vaða í vinstra hornið og staðan 4-3 fyrir Juventus.

Dramatíkin var ekki búin. Roma fékk vítaspyrnu á 81. mínútu eftir að Matthijs de Ligt handlék knöttinn innan teigs. Hann var á gulu spjaldi og fékk sitt annað gula og þar með rautt. Pellegrini steig á punktinn en Wojciech Szczesny varði boltann út í teiginn og klúðraði svo Pellegrini frákastinu.

Ótrúlegur leikur í Róm en það eru gestirnir sem fóru með sigur af hólmi, 4-3. Stór sigur fyrir Juventus sem er í 5. sæti deildarinnar með 38 stig og stefnir hraðbyri á Meistaradeildarsæti.

Stórsigrar hjá Atalanta og Sassuolo

Sassuolo var í miklum gír er liðið vann Empoli, 5-1. Gianluca Scamacca og Domenico Berardi voru öflugir í leiknum. Scamacca skoraði tvívegis en Berard gerði eitt mark og lagði upp tvö í sterkum sigri.

Napoli, sem er enn án nokkurra lykilmanna, vann Sampdoria 1-0 með marki frá Andrea Petagna og þá vann Spezia lið Genoa með sömu markatölu.

Atalanta var í hörkugír gegn Udinese og vann 6-2. Gestirnir voru þremur mörkum yfir í hálfleik áður en Berat Djimsiti skoraði sjálfsmark eftir klukkutímaleik. Luis Muriel gerði fjórða mark Atalanta áður en Beto minnkaði muninn. Danski bakvörðurinn Joakim Mæhle og ítalski miðjumaðurinn Mattea Pessina sáu þó til þess að sigurinn yrði öruggur og lokatölur þar 6-2. Atalanta er í 4. sætinu með 41 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Empoli 1 - 5 Sassuolo
0-1 Domenico Berardi ('13 , víti)
1-1 Liam Henderson ('16 )
1-2 Giacomo Raspadori ('24 )
1-3 Gianluca Scamacca ('67 )
1-4 Giacomo Raspadori ('71 )
1-5 Gianluca Scamacca ('90 )
Rautt spjald: Mattia Viti, Empoli ('60)

Roma 3 - 4 Juventus
1-0 Tammy Abraham ('11 )
1-1 Paulo Dybala ('18 )
2-1 Henrikh Mkhitaryan ('48 )
3-1 Lorenzo Pellegrini ('53 )
3-2 Manuel Locatelli ('70 )
3-3 Dejan Kulusevski ('72 )
3-4 Mattia De Sciglio ('77 )
Rautt spjald: Matthijs de Ligt, Juventus ('81)

Udinese 2 - 6 Atalanta
0-1 Mario Pasalic ('17 )
0-2 Luis Muriel ('22 )
0-3 Ruslan Malinovskiy ('43 )
1-3 Berat Djimsiti ('59 , sjálfsmark)
1-4 Luis Muriel ('76 )
2-4 Beto ('88 )
2-5 Joakim Maehle ('89 )
2-6 Matteo Pessina ('90 )

Napoli 1 - 0 Sampdoria
1-0 Andrea Petagna ('43 )

Genoa 0 - 1 Spezia
0-1 Simone Bastoni ('14 )
Athugasemdir
banner
banner