Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 09. janúar 2022 10:41
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Keflavík leitar að styrkingu - „Nóg af senturum í KR"
Kaj Leo í leik með Val.
Kaj Leo í leik með Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Aron Bjarki Jósepsson.
Varnarmaðurinn Aron Bjarki Jósepsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflavík er að skoða möguleika til að styrkja leikmannahóp sinn fyrir næsta tímabil.

Einn af þeim sem koma til greina fyrir Keflvíkinga er Færeyingurinn Kaj Leo í Bartalsstovu. Þetta staðfesti Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, eftir tap gegn Breiðabliki í Fótbolta.net mótinu í gær, laugardag.

Kaj er þrítugur Færeyingur sem spilar oftast á kantinum. Hann lék með FH og ÍBV áður en hann gekk í raðir Vals árið 2019. Hann er núna samningslaus.

„Hann er einn af þeim sem koma til greina hjá okkur. Hann er á lista. Við erum að leita eftir frekari styrkingu og vonumst til að tilkynna um eitt í vikunni," sagði Sigurður Ragnar og mun sá leikmaður koma erlendis frá.

Tilboð í Aron Bjarka og hleruðu sóknarmenn
Siggi Raggi sagði einnig frá því í viðtalinu að Keflvíkingar hefðu gert tilboð í Aron Bjarka Jósepsson, miðvörð KR. Það er hins vegar ólíklegt að hann mæti á svæðið.

„Við gerðum tilboð í Aron Bjarka. Hann vildi hugsa málin. Síðast þegar ég vissi, þá var hann ekki búinn að taka ákvörðun. En við þurftum að horfa annað því það var kominn mjög langur tími. Honum fannst langt að fara til Keflavíkur þegar hann býr í Vesturbænum. Það er mikill tími frá börnunum og við sýnum honum skilning á því."

Sæþór Olgeirsson, leikmaður Völsungs, hefur einnig verið orðaður við Keflavík. „Við hleruðum hann aðeins. Við hleruðum fleiri sóknarmenn innanlands en þeir fóru annað. Sigurður Bjartur (Hallsson) fór í KR og Stefán (Ljubicic) fór í KR. Það er nóg af senturum í KR. Við þurfum að styrkja okkur fram á við og erum að vinna í þeim málum."

Það er ekki staðfest hvar Sæþór spilar á næsta tímabili og mögulegt að það verði í Keflavík.

Siggi Raggi greindi einnig frá því að Bandaríkjamaðurinn Christian Volesky væri farinn frá Keflavík. Allt viðtalið má sjá í spilaranum að neðan.
Munur á undirbúningi Keflavíkur og Blika - „Gaman að sjá menn grípa tækifærið"
Athugasemdir
banner
banner
banner