Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 09. ágúst 2020 19:02
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Enginn að fara með skúffuköku og mjólkurglas" í KSÍ
Frá Laugardalsvelli.
Frá Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rætt var um störf KSÍ að undanförnu í útvarpsþættinum Fótbolta.net á X-inu 977 í gær.

Búið er að fresta öllum kappleikjum hér á landi til 13. ágúst og ekki eru leyfðar æfingar nema með tveggja metra reglu vegna kórónuveirufaraldursins. Á meðan fá barir og skemmtistaðir til að mynda að vera opnir.

„Þegar yfirvöld voru farin að 'hóta' því að tveggja metra reglan væri að fara aftur í gang, þá hefði fótboltahreyfingin átt að bregðast við," sagði Elvar Geir. „Í staðinn kom það KSÍ í opna skjöldu þegar reglurnar voru settar."

„Þau eru með Víði Reynisson (sem starfar núna sem yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra), mann sem hefur verið með annan fótinn hjá sambandinu, en samt kom þetta eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar þessar reglur voru settar."

Tómas Þór segir að pirringur sé að myndast hjá félögunum í landinu með störf knattspyrnusambandsins.

„Það er engin stofnun á þessu landi sem manni langar að halda jafnmikið með og KSÍ. Þetta eru félögin í landinu og samband sem sér um íþróttina sem við lifum fyrir. Ég viðurkenni það að það hefur verið erfitt að halda með stórvinum okkar í knattspyrnusambandinu síðustu daga og vikur," sagði Tómas Þór.

„Þetta hefur verið svolítið veiklulegt og þeir voru ansi seinir til. Maður hefur líka heyrt að menn hafi ekki verið sáttir með rafræna fundinn (sem var fyrir helgi), það hafi verið lítið um svör og að félögin í landinu séu orðin svolítið pirruð á þessu. Svo var ég að heyra það í gær að KSÍ tókst að gleyma því að skrá íslensku liðin til leiks í Evrópukeppni. Knattspyrnusamband Evrópu þurfti að hafa samband og spyrja hvort íslensku félögin ætluðu ekki að vera með."

„Ofan í það sem er í gangi og pirringinn gagnvart ekki alltof sterkum viðbrögðum eða nægilega miklum þrýstingi á Almannavarnir og sóttvarnarlækni til að klára þetta mót, þá eru svona hlutir líka til að stinga menn enn meira. Það er enginn að fara með skúffuköku og mjólkurglas niður eftir. Það er að myndast gjá milli þings og þjóðar," sagði Tómas.

Umræðuna má hlusta á í heild sinni hér að neðan.

Sjá einnig:
Formaður KR: Við getum ekki beðið til 13. ágúst
„Vona að heilbrigðisráðherra átti sig á þessu og breyti þessu"
Útvarpsþátturinn - Óvissan hjá íslenskum félögum og landsliðinu
Athugasemdir
banner
banner