Öllum kappleikjum á Íslandi hefur verið frestað til 13. ágúst, en óttast er að það muni vara lengur.
Undirbúningur KR fyrir leikinn gegn Celtic í forkeppni Meistaradeildarinnar verður erfiðari en áður í ljósi þess að það er bann á kappleikjum þessa stundina vegna kórónuveirunnar og ekki má stunda æfingar nema að tveggja metra fjarlægð sé á milli manna.
Íslandsmeistarar KR drógust í dag gegn skosku meisturunum í Celtic í forkeppni Meistaradeildarinnar. Venjan er að leikið sé heima og að heiman en núna er bara einn leikur að sökum kórónuveirufaraldursins. Leikið verður í Skotlandi sem er jákvætt vegna stöðunnar hér á landi.
Sjá einnig:
Rúnar Kristins um að mæta Celtic: Ágætis lausn
„Það eina sem skyggir á þetta er að næsti leikur okkar er mögulega erfiður leikur í Meistaradeildinni og þá erum við ekki búnir að spila leik í einhverjar þrjár vikur þegar kemur að því," segir Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, í samtali við Fótbolta.net.
Síðasti leikur KR var gegn Fjölni í Mjólkurbikarnum undir lok júlí. Það er búið að fresta öllum leikjum til 13. ágúst að minnsta kosti, en óttast er að sú frestun verði enn lengri. Þau rök sem gefin eru fyrir því að ekki sé hægt að spila fótboltaleiki hér á landi er sú að ekki sé hægt að viðhalda tveggja metra reglunni inn á fótboltavellinum. Þó er spilaður í fótbolti í öðrum löndum víðs vegar um Evrópu, þar á meðal hjá nágrannaþjóðum Íslands.
„Ef þú getur ekki spilað fótbolta þá er erfitt að byrja allt í einu, þá er þetta eins og vorleikur. Við verðum að líkja æfingum okkar eftir leik, en það er alltaf mjög erfitt. Við munum gera okkar besta til að hafa liðið í standi til að ná í hagstæð úrslit. Við viljum alla vega skila góðu verkefni frá okkur."
KR-ingar eru að æfa þar sem reynt er eftir bestu getu að viðhalda tveggja metra reglunni, en Rúnar skorar á heilbrigðisráðherra að leyfa fótboltanum að rúlla því engin smit hafa komið upp
„Við höldum áfram að æfa eins og öll lið í Pepsi Max-deildinni eru að gera, með þessari tveggja metra reglu. Ég held að það séu ekki margir að virða hana þó menn séu að reyna eftir fremsta magni. Það hafa engin smit á Íslandi komið upp í fótboltaleikjum eða á fótboltaæfingum á Íslandi. Það hafa engin smit komið upp í fótboltaleikjum á Englandi, Þýskalandi, Spáni og Ítalíu. Það er með ólíkindum að við séum ekki að spila hér," segir Rúnar.
„Það þarf að læra af þessum leikmönnum Aberdeen sem eru með kórónuveiruna. Þeir smituðust ekki í fótbolta, þeir smituðust á barnum. Það er vandamálið, það er stóra vandamálið."
„Íslenskir fótboltamenn og fótboltamenn úti í heimi fara á fótboltaæfingu, hugsa vel um sig og spritta sig. Við þjálfararnir erum búnir að vera ótrúlega duglegir í því að minna okkar leikmenn á að passa upp á sitt, við erum ítrekað að fara yfir þetta. Það er kannski ástæðan fyrir því að smitin eru ekki að gerast á fótboltavellinum, þau eru að gerast í veislunum. Leikmenn verða að passa sig að fara ekki að fara í einhver partý, á barinn eða í stór samkvæmi. Ég vonast til að fá einn leik í Pepsi Max-deildinni áður en við förum í Evrópukeppnina."
Hvað varðar æfingar KR um þessar mundir segir Rúnar:
„Við höldum fjarlægð og pössum okkur á því. Við erum að passa upp á að menn eru ekki ofan í hvor öðrum, að menn dreifi sér vel. Við erum að hlaupa mikið og svo er hægt að vera með sendingaræfingar. Við höfum líka hent í spil þar sem eru sex á móti sex, átta á móti átta og þá kemur örlítil snerting. Svona er þetta alls staðar út í heiminum og þá hefur það ekki verið vandamál."
„Leikmenn koma klæddir á æfingar. En eins fáránlegt og þetta er, þá gæti ég verið með alla leikmenn mína á æfingu í líkamsræktarstöð því þar mega 100 koma saman. Við getum líka farið í sund saman. Þetta snýst um það að halda tveggja metra reglunni. Ég vona að heilbrigðisráðherra átti sig á þessu og breyti þessu. Ég vona að hún átti sig á því hvar smitin eru því þau eru á öðrum stöðum en fótboltavöllunum," segir þjálfari Vesturbæjarstórveldisins.
Sjá einnig:
„Ótrúlega lítil smithætta í fótboltaleik"
Athugasemdir