Björgvin Brimi Andrésson skrifaði undir samning við Íslandsmeistara Víkings út árið 2029 í gær en hann kom frá uppeldisfélagi sínu, Gróttu. Nýjasti leikmaður Víkings kom í viðtal hjá Fótbolta.net og ræddi vistaskiptin.
„Þetta er mjög spennandi, geggjað 'move' og gaman að spila fyrir besta klúbb á Íslandi. Það voru nokkur önnur lið (sem sýndu áhuga) í Bestu-deildinni. En Víkingar heilluðu mest. Það er ekki spurning ef Víkingur spyr þig um að koma þá væntanlega fer maður.“
Víkingur sýndi áhuga á Björgvini fyrr í sumar en Grótta neitaði tilboðinu.
„Þegar Víkingur sýnir áhuga á manni þá veit maður að það er ekkert grín. Auðvitað vill maður fara.“
Bróðir Björgvins er Benóný Breki Andrésson, leikmaður Stockport í Englandi. Björgvin segir þá vera ólíka leikmenn, en þó báða með markanef.
„Ég er snöggur kantmaður sem vill taka leikmann á. Ég get spilað hægra og vinstra megin, hvar sem er. Hann (Benóný) er stór og vill fá hann í boxið. Ég vil fá hann meira í lappir og keyra á menn. En maður vill alltaf skora, þetta er í blóðinu.“
Viðtalið við Björgvin má sjá í spilaranum fyrir ofan.