Maguire og Fernandes áfram á Old Trafford - Silva til í að fara - Endrick í úrvalseildina - Semenyo til Man Utd?
   fim 09. október 2025 15:30
Elvar Geir Magnússon
Dovbyk um vítaklúðrin ótrúlegu: Sé bara eftir einu
Dovbyk klúðraði sama vítinu tvisvar.
Dovbyk klúðraði sama vítinu tvisvar.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Artem Dovbyk er staddur með úkraínska landsliðinu á Íslandi en þessi sóknarmaður Roma tjáði sig við fréttamenn um vítaklúður sín í Evrópudeildarleiknum gegn Lille nýlega.

Hákon Arnar Haraldsson skoraði sigurmark Lille í leiknum en Roma fékk vítaspyrnu í lokin og hefði getað jafnað. Ítalska liðið þurfti að taka spyrnuna þrisvar!

Dovbyk steig á punktinn í tvígang, fyrst fór varnarmaður Lille of snemma inn í teiginn og svo fór markvörðurinn Berke Özer af línunni. Matias Soule fór þá á punktinn í þriðju tilraun en Özer varði einnig frá honum. Ótrúleg atburðarás.

„Þetta var óskemmtileg stund á mínum ferli. Liðið sýndi mér mikinn stuðning og daginn eftir ræddum við ekkert um það að við klúðruðum sama vítinu þrisvar. Við fórum frekar yfir spilamennsku okkar og flæðið í leiknum," segir Dovbyk.

„Þetta var erfiður leikur og við náðum ekki að sýna okkar bestu hliðar. Ég er búinn að skoða vítaspyrnurnar og eina eftirsjá mín er að hafa ekki tekið þriðju vítaspyrnuna. Það er það eina sem mér líður illa yfir."

Dovbyk verður í eldlínunni með Úkraínu á Laugardalsvelli á morgun. Hákon Arnar Haraldsson hrósaði Dovbyk í hástert á blaðamannafundi Íslands í dag og Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari Íslands nefndi hann sérstaklega þegar hann ræddi um leikmenn sem þyrfti að varast í liði andstæðingana. 

„Ég spilaði á móti honum fyrir stuttu þegar hann klúðraði þessum frægu vítum. Hann er ótrúlega sterkur og hraður þannig við þurfum að hafa miklar gætur á honum,“  sagði Hákon á blaðamannafundinum í dag.


Athugasemdir
banner