
Daníel Tristan Guðjohnsen fékk sitt fyrsta rauða spjald á ferlinum í síðustu viku er Malmö tapaði 3-0 gegn Viktoria Plzen. Daníel er í landsliðshóp Íslands sem mætir Úkraínu og Frakklandi. Fótbolti.net ræddi við Daníel á landsliðshótelinu fyrr í dag.
„Ég fór aðeins með olnbogann í andlitið á varnarmanninum. Það var ekki nægilega gott hjá mér, bara mistök. Ég læri af þessu og áfram gakk.“
Áttu það til að snögghitna svona?
„Nei það á ég ekki til, ég held að þetta geti komið fyrir alla. Svo er þetta hvernig maður höndlar þetta. Þarna gerði ég ekki nægilega vel.“
Malmö er í sjöunda sæti í sænsku deildinni og liðið hefur fengið sinn skerf af gagnrýni.
„Við erum náttúrulega stærsti klúbburinn í Svíþjóð, við eigum alltaf að vinna. Svo geta komið tímabil þar sem gengur ekki nægilega vel og þá verða menn ekki sáttir með það. Sem maður skilur alveg. Við erum ennþá að reyna okkar besta og reynum að koma okkur upp úr þessu.“
Henrik Rydström var rekinn sem þjálfari Malmö í lok september og Anes Mravac tók við sem þjálfari liðsins.
„Þetta er hluti sem gerast í fótboltanum, maður veit ekki hvað getur gerst. Maður getur horft á það sem jákvæðan hlut, maður getur horft á þetta sem jákvæðan hlut, byrja nýjan kafla með nýjum þjálfara og reyna bæta okkur.“