Maguire og Fernandes áfram á Old Trafford - Silva til í að fara - Endrick í úrvalseildina - Semenyo til Man Utd?
   fim 09. október 2025 09:12
Elvar Geir Magnússon
Dovbyk ræddi ekkert við Albert - „Hákon er öflugur leikmaður“
Eimskip
Artem Dovby hefur skorað ellefu landsliðsmörk fyrir Úkraínu.
Artem Dovby hefur skorað ellefu landsliðsmörk fyrir Úkraínu.
Mynd: EPA
Artem Dovbyk, sóknarmaður Roma, er helsti markaskorari úkraínska landsliðsins. Hann veitti viðtal í aðdraganda leiksins gegn Íslandi sem verður á Laugardalsvelli annað kvöld.

Dovbyk segir að Úkraína þurfi nauðsynlega á sigri að halda í baráttunni um annað sætið en það voru vonbrigði hjá Úkraínumönnum að ná ekki að vinna Aserbaídsjan í síðasta glugga.

Rétt fyrir landsleikjagluggann lék Dovbyk með Roma í 2-1 sigri gegn Alberti Guðmundssyni og félögum í Fiorentina. Dovbyk var spurður að því hvort hann hefði rætt um komandi landsleik við Albert?

„Nei, ég talaði ekkert við hann. Hann var tekinn af velli eftir fyrri hálfleikinn," svaraði Dovbyk og var því næst spurður út í Hákon Arnar Haraldsson. Hákon skoraði sigurmark Lille gegn Roma í Evrópudeildinni nýlega.

„Hann spilaði ansi vel gegn okkur, hann var áberandi. Hann er öflugur leikmaður."

Dovbyk var spurður út í það verkefni að mæta íslenska landsliðinu sem væri nokkuð sterkt á heimavelli og út í veðuraðstæðurnar á Íslandi.

„Allir leikmennirnir í hópnum eru klárir í þetta verkefni. Við höfum spilað marga leiki gegn sterkum liðum. Menn þurfa að hafa einbeitinguna í lagi og ekki gefa eftir í baráttunni. Ég býst við mikilli baráttu og við þurfum að vera tilbúnir í það. Bæði lið spila í sömu aðstæðum svo það er tilgangslaust að hugsa út í vind eða rigningu, við þurfum bara að vera betri á vellinum."

Úkraínska landsliðið lenti í Keflavík um kvöldmatarleytið í gær og mun seinna í dag æfa á Laugardalsvelli auk þess sem Sergiy Rebrov situr fyrir svörum á fréttamannafundi.
Athugasemdir
banner