Spænski stjórinn Pep Guardiola tapaði fjórða leik sínum í röð sem þjálfari Manchester City er liðið mætti Brighton í dag en þetta er í fyrsta sinn sem þetta gerist á þjálfaraferli hans.
Man City fór með eins marks forystu inn í hálfleikinn en hún hefði getað verið töluvert stærri ef leikmenn liðsins hefðu nýtt færi sín.
Í staðinn hleypti liðið Brighton inn í leikinn sem síðan vann leikinn með mörkum frá Joao Pedro og Matt O'Riley.
Englandsmeistararnir hafa nú tapað fjórum leikjum í röð í öllum keppnum og útlit fyrir að liðið verði fimm stigum frá toppnum eftir þessa umferð.
„Fjögur slæm úrslit og þessi seinni hálfleikur er einn versti hálfleikur sem ég hef séð frá Pep Guardiola-liði. Þeir voru hryllilegir, vörðust ekki, unnu ekki einvígi og sendu stundum ekki boltann fram völlinn,“ sagði Jamie Redknapp á Sky Sports.
„Þeir voru frábærir í fyrri hálfleik en vandamálið er að þeir áttu að vera 3-0 yfir. Það var bara eitt lið á vellinum eftir að Hurzeler gerði þessar breytingar í hálfleik.“
„Þegar leikurinn er að renna úr greipum þér ferðu að horfa á karakter leikmanna. Hver ætlar í tæklinguna og vinna boltann þegar þú þarft mest á því að halda? Hver ætlar að sjá um að fá ró í leikinn? Það var enginn að gera það.“
„Þeir litu út eins og hópur af ókunnugum leikmönnum og mörkin sem þeir fengu á sig súmmeruðu það upp. Þetta voru mjög léleg mörk svona frá sjónarhorni Man City séð, en auðvitað stórt hrós á Brighton líka,“ sagði Redknapp.
Athugasemdir