Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 10. janúar 2021 20:25
Ívan Guðjón Baldursson
Mourinho: Veit hvað þessi bikarkeppni þýðir fyrir fólkið
Mynd: Getty Images
Jose Mourinho var kátur eftir 0-5 sigur Tottenham gegn utandeildarliði Marine í enska bikarnum í dag.

Tottenham leiddi 0-4 í leikhlé og samt héldu leikmenn áfram að taka viðureigninni alvarlega og sækja á andstæðingana. Carlos Vinicius setti þrennu í fyrri hálfleik og er Mourinho ánægður að sjá hann fara í gang.

„Ég er ánægður með strákana. Þeir mættu með jákvætt hugarfar og sýndu fagmennsku frá fyrstu til síðustu mínútu leiksins. Við sýndum andstæðingunum og keppninni virðingu og getum verið stoltir af því," sagði Mourinho.

„Það er gott fyrir hann að skora þrennu, hann fær ekki mikinn spiltíma en þegar við þurfum hann þá skilar hann inn sínu eins og til dæmis í Evrópudeildinni."

Hinn 16 ára gamli Alfie Devine varð yngsti leikmaður í sögu Tottenham til að spila keppnisleik fyrir félagið og skora mark. Hann kom inn í hálfleik og skoraði fimmta markið. Dele Alli og Gedson Fernandes verið mikið utan liðsins en byrjuðu í dag og stóðu sig vel.

„Þetta er frábært fyrir Alfie og alla aðra í akademíunni. Það er mikilvægt að gefa ungum leikmönnum tækifæri. Ég er mjög ánægður með hugarfarið hjá Dele og Gedson, þeir voru flottir í dag. Það kæmi mér ekki á óvart ef Dele kæmi við sögu í næsta deildarleik núna á miðvikudaginn.

„Við erum komnir í úrslitaleikinn í deildabikarnum, við erum á réttri leik í FA-bikarnum og á fínum stað í úrvalsdeildinni."


Þetta var í fyrsta sinn sem Mourinho spilar við utandeildarlið á Englandi og telur mikilvægt að sýna virðingu þrátt fyrir gríðarlegan gæðamun.

„Ég er ekki enskur en ég veit hvað þessi bikarkeppni þýðir fyrir fólkið í landinu. Ég held að fólk hérna í bænum sé gríðarlega ánægt að geta fengið að sjá menn eins og Gareth Bale og Moussa Sissoko spila á þessum velli. Þetta er örugglega ótrúleg tilfinning fyrir íbúana sem geta verið stoltir af frammistöðu sinna manna."
Athugasemdir
banner
banner