Það virðist allt benda til þess að framherjinn öflugi Wissam Ben Yedder skrifi undir samning við ítalska félagið Venezia á næstu dögum. Þar verður hann liðsfélagi Mikaels Egils Ellertssonar og Bjarka Steins Bjarkasonar.
Ben Yedder, 34 ára, hefur verið falur á frjálsri sölu eftir að samningur hans við AS Mónakó rann út síðasta sumar. Hann skoraði 20 mörk í 34 leikjum á síðasta tímabili með Mónakó og hefur undanfarin ár verið einn af bestu framherjum frönsku deildarinnar.
Ben Yedder, sem skoraði 3 mörk í 19 A-landsleikjum fyrir Frakkland, lék fyrir Toulouse og Sevilla áður en hann hélt til Mónakó sumarið 2019. Franska félagið borgaði upp riftunarákvæðið í samningi framherjans við Sevilla, sem hljóðaði upp á 40 milljónir evra.
Eftir að Ben Yedder rann út á samningi hjá Mónakó tókst honum ekki að finna sér nýtt félag og fór að drekka meira áfengi. Það endaði á því að Ben Yedder var dæmdur fyrir kynferðisbrot þegar hann keyrði með konu í bílakjallara eftir fyllerí og byrjaði að stunda sjálfsfróun, óumbeðinn, sem varð til þess að konan flúði og faldi sig á milli bifreiða í kjallaranum.
Framherjinn er vonandi búinn að snúa blaðinu við en það er ljóst að Feneyingar þurfa á kröftum hans að halda í fallbaráttu Serie A deildarinnar.
04.02.2025 09:30
Markahæsti leikmaður Venezia fór óvænt í B-deildina
Athugasemdir