Herrakvöld, óupphitaður völlur, flugsamgöngur og fleira setja strik í reikninginn
Fyrsti heimaleikur Vestra á þessu tímabili á að fara fram á sunnudag, en spurning hvernig málin þróast.
Klukkan 14:00 á sunnudag er áætlað að leikur Vestra og FH fari af stað á Kerecisvellinum á Ísafirði. Veðurspáin á þeim tíma lítur ekki vel út, það verður kalt, líklega snjókoma og nokkuð vindasamt.
Fótbolti.net ræddi við Samúel Samúelsson, formann meistaraflokksráðs Vestra, og Davíð Þór Viðarsson, yfirmann fótboltamála hjá FH, í dag.
Spáin á laugardag er mjög góð en æfingavika FH og Herrakvöld FH, sem verður haldið annað kvöld, eru notuð sem rök gegn því að spila á laugardeginum.
Fótbolti.net ræddi við Samúel Samúelsson, formann meistaraflokksráðs Vestra, og Davíð Þór Viðarsson, yfirmann fótboltamála hjá FH, í dag.
Spáin á laugardag er mjög góð en æfingavika FH og Herrakvöld FH, sem verður haldið annað kvöld, eru notuð sem rök gegn því að spila á laugardeginum.
Óttast að ekki verði hægt að spila á sunnudag
„Ég held það verði ekki leikfært á sunnudag, ef spáin gengur eftir þá verður ekkert leikfært, 13 m/s og snjókoma, það spilar enginn fótbolta í því. Ef það verður ekki spilað á sunnudag, þá verður spilað á mánudag. Frá mér séð væri langbest ef FH-ingar myndu keyra hingað á morgun og leikurinn spilaður á laugardag," segir Sammi.
Slæm veðurskilyrði bitna á leiknum sjálfum
Davíð var spurður út í sjónarhorn FH á leikinn og mögulegar tilfærslur.
„Veðurspáin er ekkert sérstök, frekar kalt og gott ef það á ekki að snjóa eitthvað. Ég hef ekkert heyrt um að það séu líkur á því að völlurinn verði ekki spilhæfur, en þó svo að það verði metið að hann verði spilhæfur, þá gæti það bara bitnað á leiknum sjálfum. Við erum að reyna finna út úr því hvernig er best að gera þetta."
En hvað ef það verður ekki hægt að spila á sunnudag?
„Þá verður kannski leikurinn færður yfir á mánudag ef veðurspáin er betri þá, ég bara þekki það ekki. Það hefur komið til tals hvort við ættum að víxla heimaleikjum. Þetta kannski kennir manni það að á meðan Vestramenn eru að bíða eftir því að fá hita í gervigrasið að þá er kannski ekkert brjálæðislega sniðugt að vera setja heimaleiki þangað um miðjan apríl. Það vita allir, veðurfræðingar og aðrir, að það getur verið ansi kalt þarna á þessum tíma."
Af hverju er ekki bara spilað á laugardaginn?
„Við spiluðum á mánudegi og æfingavikan sett upp fyrir leik á sunnudegi. Ef spilað yrði á laugardegi þá hefðum við þurft að leggja af stað vestur á morgun, við erum með Herrakvöld á morgun þar sem leikmenn eru mjög aktífir. Það er fullt af ástæðum af hverju að spila á laugardag hentaði ekki fyrir okkur. Mér finnst líka verra að flýta heldur en að seinka honum."
Kaplakrikavöllur er tilbúinn
Varðandi víxlun heimaleikja, er völlurinn ykkar klár?
„Já, aðalvöllurinn okkar er tilbúinn. Veturinn er búinn að vera okkur hliðhollur, þessum tveimur grasliðum sem eftir eru í efstu deild. Það er ekkert því til fyrirstöðu að spila hjá okkur á sunnudeginum ef allir aðilar yrðu sáttir með það," segir Davíð.
Ekki hægt að fá flug suður fyrir Vestramenn
Fréttamaður hringdi aftur í Samma í ljósi þessarar hugmyndar að mögulega víxla heimaleikjum liðanna; spila þennan leik á heimavelli FH og svo leik liðanna í seinni umferðinni á heimavelli Vestra.
„Davíð bauð mér að víxla heimaleikjum en það gengur ekki, ég fæ ekki flug. Það eru bara til níu sæti laus og það er bara ein vél frá Ísafirði til Reykjavíkur," segir Sammi. Hann vonast til þess að FH-ingar haldi vestur á morgun og leikurinn verði spilaður á laugardag.
Það verður fróðlegt að sjá hvað verður, hvenær leikurinn verður spilaður. Fótbolti.net mun fylgjast með framvindu mála.
Athugasemdir