„Það er góð stemning í hópnum og þetta leggst bara vel í okkur," segir Selma Sól Magnúsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins, í samtali við Fótbolta.net.
„Þetta eru sterk lið sem við erum að mæta, en við erum líka með sterkt lið. Þetta er bara spennandi og gaman."
„Þetta eru sterk lið sem við erum að mæta, en við erum líka með sterkt lið. Þetta er bara spennandi og gaman."
Framundan eru tveir síðustu leikirnir í undankeppni EM. Ísland mætir Þýskalandi á Laugardalsvelli föstudaginn 12. júlí og Póllandi ytra þriðjudaginn 16. júlí. Ísland er í öðru sæti þegar tveir leikir eru eftir af undankeppninni. Tvö efstu liðin fara áfram beint í lokakeppni EM 2025.
Núna á föstudaginn er möguleiki á að tryggja sætið hér á heimavelli ef stelpurnar leggja stórlið Þýskalands að velli.
„Það er leikurinn sem við erum að fókusa á núna og við erum mjög spenntar fyrir því. Auðvitað væri draumurinn að tryggja okkur á EM þá. Það kemur bara í ljós hvort það gengur upp eða ekki. Það er alltaf erfitt fyrir önnur lið að koma á Laugardalsvöll. Það er 100 prósent möguleiki."
Mikið um þrjá á þrjá
Þessi landsleikjagluggi kemur á frekar skrítnum tíma fyrir marga leikmenn sem eru að koma úr sumarfríi. Selma var að spila í þýsku úrvalsdeildinni sem er núna í fríi.
„Ég er búin að æfa sjálf og svo vorum við nokkrar á æfingum hérna. Það er búið að ganga vel," segir Selma en þær voru sex saman á æfingum í síðustu viku áður en hópurinn kom allur saman fyrr í þessari viku.
„Það var svolítið um þrjá á þrjá, en það var mjög gaman. Maður er alltaf með keppnisskap í það og það er bara gaman að spila í fótbolta."
Selma kláraði síðasta tímabil með Nürnberg í Þýskalandi en er núna í leit að öðru liði.
„Það verður bara að koma í ljós. Það eru alltaf einhverjar viðræður og alltaf eitthvað í gangi. Maður á bara eftir að taka ákvörðun," segir Selma en allt viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir