þri 11. janúar 2022 16:22
Elvar Geir Magnússon
Grétar Rafn ráðinn í tímabundið ráðgjafastarf hjá KSÍ
Grétar Rafn Steinsson.
Grétar Rafn Steinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grétar Rafn Steinsson hefur verið ráðinn til KSÍ sem tæknilegur ráðgjafi knattspyrnusviðs. Ráðningin er tímabundin til sex mánaða og hefur Grétar Rafn strax störf.

„Með ráðningunni er stigið metnaðarfullt skref í greiningarvinnu innan KSÍ, sem mun gagnast félagsliðum og öllum landsliðum, þar á meðal t.d. A landsliði kvenna sem tekur þátt í úrslitakeppni EM á Englandi í sumar," segir á heimasíðu KSÍ.

Á meðal helstu verkefna Grétars Rafns eru þarfagreining og skimun (scouting) innan Knattspyrnusviðs KSÍ, vinna að stefnumótun, fagleg efling á greiningarvinnu innan íslenskrar knattspyrnu almennt (landslið og félagslið) í samvinnu og samráði við starfsmenn Knattspyrnusviðs KSÍ og fulltrúa aðildarfélaganna eins og við á (í formi funda, námskeiða og fyrirlestra), samhæfing á greiningarvinnu og skimun yngri og eldri landsliða í samvinnu og samstarfi við þjálfara liðanna, og ábyrgð á þróun gagnagrunns sem heldur utan um gögn Knattspyrnusviðs KSÍ.

Grétar Rafn Steinsson, sem er Siglfirðingur og varð fertugur á dögunum lék sem atvinnumaður til margra ára, í Sviss, Hollandi, Tyrklandi og Englandi. Á Íslandi lék hann lengst af með ÍA í meistaraflokki, en hóf þó ferilinn með KS. Grétar Rafn á 46 A-landsleiki fyrir Íslands hönd (4 mörk), auk leikja með öllum yngri landsliðunum.

Að loknum leikmannsferlinum lauk Grétar Rafn meistaranámi í íþróttastjórnun (Master in Sports Management) við Barcelona University (Johan Cruyff Institute) og er einnig útskrifaður sem Level 5 Technical Director frá enska knattspyrnusambandinu, og hefur hann síðan starfað fyrir Fleetwood Town í fjögur ár og hjá Everton í þrjú ár sem Head of Recruitment and Development.

„KSÍ væntir mikils af störfum Grétars Rafns og býður hann velkominn til starfa," segir í tilkynningunni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner