Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   þri 11. janúar 2022 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Hef ekki getað hætt að brosa síðan ég kom hingað út"
Icelandair
Sáttur með valið.
Sáttur með valið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: KSÍ
Damir Muminovic var í síðustu viku valinn í íslenska landsliðið í fyrsta sinn á ferlinum. Damir er 31 árs miðvörður og spilar með Breiðabliki.

Landsliðið mætir Úganda á morgun og verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Damir ræddi um landsliðið við Fótbolta.net í dag.

Hefur vonast eftir kallinu
„Ég er þokkalegur bara, þetta hafa verið rosalega fínir þessir fyrstu dagar, verið fínar æfingar og maður er að kynnast nokkrum nýjum strákum hérna. Utan æfinga er bara rólegt, við æfum bara og svo er slakað á. Menn eru bara að leika sér frammi á gangi, að spila eða í einhverjum golfleikjum og svoleiðis," sagði Damir.

Hvenær fékkstu að vita að þú yrðir í hópnum?

„Ég fékk símtalið á mánudag eða þriðjudag minnir mig. Arnar hringdi í mig og tilkynnti mér það að ég væri valinn. Ég var rosalega glaður, maður hefur beðið eftir þessu - að fá tækifæri í æfingaleikjum undanfarin ár. En ég átti ekki von á því að þetta myndi koma núna. Þetta kom mér mjög mikið á óvart, eðlilega. Maður er ekkert að yngjast, þó að Arnar vilji meina það," sagði Damir og hló.

Á síðustu árum þegar þessi janúarverkefni hafa verið, hefuru verið að vonast eftir kallinu? „Já, ef ég á að vera hreinskilinn. Þegar þessir æfingaleikir eru og leikmenn úr stærstu deildunum komast ekki. Það er mjög gaman að geta hakað þetta í box, er rosalega ánægður og hef ekki getað hætt að brosa síðan ég kom hingað út."

Varstu að vonast eftir kallinu þegar þurfti að kalla inn leikmann vegna meiðsla Jóns Guðna Fjólusonar síðasta haust. Varstu þá að vonast eftir kallinu?

„Nei, alls ekki. Ég var voða lítið að spá í því og átti alls ekki von á því miðað við að hafa ekki verið valinn áður."

Allir gera sér vonir um að spila
Hvað heldur þú að það sé sem Arnar sér í þér núna? „Eins og hann sagði sjálfur þá býst hann við því að fá reynslu frá mér og möguleika á því að ég gæti leiðbeint einhverjum af yngri strákunum."

Geriru þér vonir um að spila í þessu verkefni? „Ég held að það sé ekkert leyndarmál að allir sem eru hérna geri sér vonir um að fá að spila. Maður er auðvitað í þessu til að spila fótbolta og vonandi kemur það tækifæri."

Ertu að upplifa alveg nýja hluti á æfingum með landsliðinu eða er þetta eitthvað sem þú hefur séð áður?

„Nei, ég myndi ekki segja það. Ég hef verið með marga þjálfara hjá Breiðabliki sem hafa spilað alls konar fótbolta þannig þetta er ekkert rosalega nýtt fyrir mér. Auðvitað eru aðrar áherslur og svoleiðis en þetta er ekkert nýtt," sagði Damir.
Athugasemdir
banner
banner
banner