Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 11. júlí 2022 17:05
Sverrir Örn Einarsson
„Ég vil að fólk hafi gaman að því að horfa á mig spila fótbolta"
Danijel Djuric.
Danijel Djuric.
Mynd: Víkingur
Arnar Gunnlaugsson, Danijel Djuric og Kári Árnason.
Arnar Gunnlaugsson, Danijel Djuric og Kári Árnason.
Mynd: Víkingur
„Ég er mjög spenntur og ánægður með þetta skref," segir Danijel Djuric sem í dag var kynntur sem nýr leikmaður Víkings.

Danijel er 19 ára gamall og uppalinn í Breiðabliki en hann var keyptur til Midtjylland fyrir þremur árum. Hann nefnir nokkrar ástæður fyrir því að Víkingur hafi orðið fyrir valinu.

„Áhuginn frá þeim og planið sem Arnar, Kári og Sölvi eru búnir að gera. Ég er mjög spenntur," segir Danijel en hann var til viðtals á fréttamannafundi í dag.

Hann var beðinn um að lýsa sjálfum sér sem leikmanni, hvers mega stuðningsmenn Víkings vænta?

„Ég er bara mjög skemmtilegur leikmaður. Ég vil að fólk hafi gaman að því að sjá mig spila fótbolta. Ég er mjög teknískur, finnst gaman að vera með boltann og gaman að 'slútta'. Ég er skemmtilegur leikmaður þó ég segi sjálfur frá. Þetta eru spennandi tímar og ég vona að stuðningsmennirnir taki vel á móti mér," segir Danijel.

Hvernig viðtökum býst hann við frá Kópavoginum, þar sem hann var jú í Breiðabliki? „Breiðablik er flottur klúbbur og það verður gaman að spila á móti þeim og vonandi skora líka," segir hann að lokum.

Arnar: Hann elskar fótbolta
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, er ánægður með að fá Danijel í sínar raðir.

„Ég hef vitað af honum lengi. Ég man eftir honum frá 4. eða 5. flokki og það hefur ekkert breyst að hann elskar fótbolta. Hann elskar að vera með boltann og ef hann er ekki með hann þá vill hann ná honum af andstæðingnum. Það er bara okkar leikur í hnotskurn. Hann er gríðarlega efnilegur og vill læra," segir Arnar.

„Hann er einn af þessum ungu strákum sem hafa valið okkur og vilja taka næsta skref. Ég segi alltaf við þessa stráka að ég hafi engan áhuga á að hafa þá lengi."

Kári Árna: Hlakka til að sjá hann spila
Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi, fagnar því að Danijel sé kominn til félagsins.

„Þetta er fyrirliði U19 landsliðsins, gríðarlega efnilegur og skemmtilegur leikmaður. Hann er með líkamlegan styrk sem maður sér ekki oft hjá strákum á hans aldri. Hann er skotviss, teknískur og með mikil gæði. Ég hlakka til að sjá hann að spila," segir Kári.

Er hann fenginn til að fylla skarð Kristals Mána Ingason sem er að öllum líkindum á leið í atvinnumennsku? „Já og nei. Þetta er sóknartengiliður sem getur spilað margar stöður á vellinum. Hann er ekki líkur Kristali Mána þannig séð," segir Kári Árnason.
Athugasemdir
banner
banner