
"Svona er þetta miklu skemmtilegra. Mikið af fólki, kótelettuhelgi. Þetta var bara geðveikt," sagði Reynir Freyr Sveinsson sem var besti maður vallarins þegar Selfoss vann 3-1 sigur gegn Fylki í kvöld.
Lestu um leikinn: Selfoss 3 - 1 Fylkir
En hvað skóp þennan sigur í dag? "Ég veit það ekki. Það var einhver extra stemming. Við erum komnir með leið á að fá á okkur þessi klaufamörk og vera góðir en ná ekki að skora."
Eins og fram hefur komið var Reynir valinn maður leiksins. Hann tengdi vel við fólkið í stúkunni og fagnaði hverri einustu tæklingu eins og marki. "Ég er bara mjög ánægður. Það er hluti af þessu að fá upp stemminguna þegar við erum neðarlega í töflunni. Að koma fólkinu í gír."
Þó Selfoss sé komið úr fallsæti er Reynir bara með hugann á næsta leik. "Nú er það bara næsti leikur á móti Grindavík sem er mikilvægur leikur. Við verðum bara að vinna hann."
Eins og fram hefur komið hefur Jón Daði Böðvarsson samið við Selfoss og verður löglegur í næsta leik. "Það gefur okkur mjög mikið. Hann er með mikla reynslu og hefur sagt sjálfur að hann hefur verið oft í botnbaráttu og veit hvað hann er að gera og hvað þetta snýst um. Svo er hann heimamaður líka. Þetta er bara geðveikt."