
„Þetta var bara mjög, mjög erfiður leikur," sagði Sigurvin Ólafsson þjálfari Þróttara eftir 3-2 sigur gegn Keflavík.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 3 - 2 Keflavík
„Ég er bara guðslifandi feginn að strákarnir sýndu þennan baráttu vilja og þennan karakter að ná í þrjú stig úr honum," sagði Venni.
Leikurinn var mjög jafn, en Þróttarar nýttu sín færi betur.
„Auðvitað gerist bara það sem gerist. Þetta voru nú ekki mörg færi sem við fáum á okkur, meira svona klafs í teignum sem hefði getað dottið fyrir þá. Við óðum svo sem ekkert í færum heldur. Þetta var svona leikur þar sem við vorum að reyna að spila okkur í gegnum þá, og þeir klókir að refsa okkur þegar það klikkaði. Þetta er bara partur af þróuninni í okkar leik, og frábært að fá þrjú stig í verðlaun," sagði Venni.
Þetta var gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið þar sem liðin voru jafn að stigum fyrir leik. Auk þess tapaði ÍR sem er á toppi deildarinnar gegn HK í kvöld, og Þróttur nálgaðist þá í leiðinni.
„Þetta var þannig lagað sex stiga leikur, bæði lið voru með 18 stig og þeir voru í sætinu fyrir ofan okkur á markatölu. Það gaf okkur smá blóð á tennurnar að ýta þeim fyrir neðan okkur í töflunni og halda áfram að reyna að klifra upp í toppbaráttuna sem er auðvitað bara markmiðið. Ég er bara stoltur af strákunum og öllum, það var hugrekki og kjarkur í að láta á þetta reyna. Þetta var karakter sigur," sagði Venni.
Sindri Kristinn Ólafsson markvörður Keflavíkur fékk að líta rauða spjaldið í uppbótartíma. Venni var sammála þeim dómi.
„Mér fannst það allavega á þeim tímapunkti, Jakob er bara að labba með boltann inn í markið. Þannig hann er að bjarga marki, það er bara 'púra' rautt," sagði Venni.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.