sun 11. september 2022 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Brighton ætlar að framlengja við Caicedo - Dreymir um að spila fyrir Man Utd
Moises Caicedo í leik með Brighton
Moises Caicedo í leik með Brighton
Mynd: EPA
Moises Caideo, miðjumaður Brighton á Englandi, er á leið í samningaviðræður við félagið á næstu vikum, en það er Mirror sem greinir frá.

Caicedo, sem er tvítugur, var keyptur til Brighton í janúar á síðasta ári frá Independiente del Valle í Ekvador, en hann lék með enska liðinu út leiktíðina áður en hann var lánaður til Beerschot í Belgíu.

Hann átti upphaflega að vera lánaður út tímabilið en Brighton kallaði hann til baka í janúar vegna manneklu á miðsvæðinu.

Caicedo hefur heillað síðan og þykir einn mest spennandi miðjumaður ensku úrvalsdeildarinnar. Stærstu félög Englands hafa fylgst náið með honum og var hann sérstaklega eftirsóttur undir lok gluggans, en Brighton neitaði að selja hann.

Mirror segir nú frá því að Brighton sé á leið í viðræður við Caicedo. Félagið vill framlengja samning hans og gefa honum veglega launahækkun.

Draumur Caicedo er að spila fyrir Manchester United og hefur hann ekki farið leynt með það. United fékk tækifæri á að kaupa hann á síðasta ári en ákvað að gera það ekki og var það Brighton sem tók áhættuna.

„Draumur minn er að spila fyrir Manchester United því ég er mjög hrifinn af enska boltanum. Hraðinn er mikill og Man Utd uppáhaldsliðið mitt," viðurkenndi Caicedo við fjölmiðla fyrir ekki svo löngu síðan.
Athugasemdir
banner
banner