Ömurlegt að falla með uppeldisfélaginu og leiðinlegt hvernig þetta þurfti að enda
Orri Hrafn Kjartansson, leikmaður U21 árs landsliðsins og Fylkis, ræddi við Fótbolta.net fyrir æfingu landsliðsins í dag.
„Mér líst gríðarlega vel á þetta verkefni, hópurinn er vel stemmdur og tilbúinn í þetta verkefni. Vikan hefur verið eins og alltaf, skoðum andstæðinginn, sjá hvar okkar möguleikar eru, og fínpússum það sem betur mátti fara í síðasta verkefni. Ég myndi segja að við eigum alltaf góðan möguleika á sigri, við erum með góðan hóp og förum inn í alla leiki til að fá öll stigin, sagði Orri.
Fylkir féll úr Pepsi Max-deildinni í sumar. Er þetta verkefni fín tilbreyting eftir erfitt tímabil með Fylki?
„Já, það er auðvitað gott að komast inn í nýjan hóp með góðum strákum, létta aðeins upp á stemninguna."
Var tímabilið í heild persónulega vonbrigði fyrir þig? „Að sjálfsögðu, það er ömurlegt að falla með uppeldisfélaginu og leiðinlegt hvernig þetta þurfti að enda. Ég tel að við höfum verið með nógu gott lið til að halda okkur uppi."
Orri hefur verið orðaður við nokkur félög í efstu deild. Ert þú að fara spila með Fylki í næstefstu deild næsta sumar? „Það kemur bara allt í ljós, ég er bara að einbeita mér að því sem ég er að gera núna."
„Nei það er ekki forgangsatriði hjá mér," sagði Orri aðspurður hvort hann vildi frekar spila í efstu deild ef það tækifæri býðst.
Athugasemdir