Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 11. nóvember 2019 22:26
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Baldur Sig: Engin kóngakrafa um að eigna mér stöðu í liðinu
Baldur í baráttunni við Brand Olsen í leik gegn FH í sumar.
Baldur í baráttunni við Brand Olsen í leik gegn FH í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Baldur Sigurðsson gekk í raðir FH í dag eftir fjögur tímabil hjá Stjörnunni. Baldur er 34 ára og hefur á ferli sínum einnig leikið með Keflavík, KR, Völsungi, FK Bryne og SönderjyskE.

Sjá einnig: Baldur Sig í FH (Staðfest)

Fótbolti.net hafði samband við Baldur í kvöld og spurði hann út í vistaskiptin. Fyrsta spurning var hversu langan tíma hefði tekið að ganga frá samningi við FH?

„Ég man ekki hvað er langt síðan það kom í ljós að ég yrði ekki áfram hjá Stjörnunni og þá komu einhver símtöl og einhverjar viðræður. FH var eitt af félögunum sem ég ræddi við og eftir umhugsun þá kom í ljós að mér fannst það mest spennandi kosturinn. Ég skrifaði undir samning í dag og ég er virkilega ánægður að vera kominn í FH," sagði Baldur við Fótbolti.net.

Er Baldur hugsaður sem miðvörður hjá FH?
Það var rætt um það í hlaðvarpsþætti Dr. Football í dag að hugmyndin væri að Baldur yrði miðvörður hjá Fimleikafélaginu. Baldur var spurður út í hvort það hefði verið rætt við hann.

„Nei ekki ennþá allavega. Þeir (Dr. Football) hljóta að vera með betri upplýsingar en ég en ég hef engar áhyggjur af því."

„Ég er þannig leikmaður ef lið sýnir mér áhuga eins og FH gerði þá kem ég inn í liðið, í þeirri stöðu sem óskað er eftir. Það er minnsta málið og ég er ekki með neinar kóngakröfur eða drottningakröfur um að fá að eigna mér sæti í liðinu eða stöðu."

„Ég spilaði aðrar stöður hjá Stjörnunni í sumar og það gekk bara nokkuð vel þannnig það á allt eftir að koma í ljós. Ég get leyst bæði miðjuna og miðvörðinn."


Boðið að vera aðstoðarþjafari hjá Stjörnunni
Rúnar Páll Sigmundsson kom inn á það í Útvarpsþættinum Fótbolti.net að hann hefði boðið Baldri aðstoðarþjálfarstöðuna hjá Stjörnunni. Baldur var spurður út í það tilboð.

„Það var mikill heiður að fá það tilboð. Stjarnan er stórt félag og ég hef kynnst gríðarlega miklu af góðu fólki þar. Þetta var spennandi tækifæri en það sem small ekki alveg var tímapunkturinn. Ég hugsaði þetta í góða viku en ég komst alltaf að þeirri niðurstöðu að ég var ekki tilbúinn að hætta og gat því ekki tekið þessu spennandi tilboði."

„Það hefði verið frábært að fá að læra fyrstu skrefin í góðu teymi en löngunin til að spila í eitt, tvö eða jafnvel þrjú tímabil var meiri. Ef maður hættir á þessum aldri þá er ekkert aftur snúið."


Kom til greina að vera spilandi aðstoðarþjálfari?

„Nei það var ekki í boði," sagði Baldur.

Sögusagnir um önnur félög
Baldur var, eftir að ljóst varð að hann yrði ekki áfram hjá Stjörnunni, orðaður við KA. Baldur var spurður hvort að önnur lið hefðu komið til greina.

„Ég ræddi við fjögur lið. Svo fækkaði ég möguleikunum sjálfur og eftir stóð eitt félag. Þetta var ferli og við sum liðin sagði ég 'takk fyrir áhugann' því ég er ekki kominn á þann tímapunkt að fara í 1. deildina, það voru einhver lið sem hringdu í mig úr þeirri deild."

„Það voru nokkur lið sem ég ræddi við, það var gaman að fá þessi símtöl og færir þjálfarar sem ég átti samtöl við. Þetta var ekki auðveld ákvörðun en ég er mjög ánægður með hana í dag."


Mikil sigurhefð og mikill metnaður
Hvernig komst Baldur að því að FH væri rétti staðurinn fyrir sig og hvernig sannfærði FH hann um að koma?

„Það þurfti ekki að sannfæra mig mikið. Ég laðaðist að klúbbnum og starfinu sem hefur verið unnið hér. Mér finnst aðstaðan frábær og leikstílinn sem hefur verið spilað heillandi. Mér líst vel á leikmennina og þjálfarann, hér er mikil sigurhefð og alltaf gaman þegar lið ná fínum árangri en eru óánægð, það sýnir bara metnaðinn."

„Ég hef spilað ófáa leikina við FH og þurft að lúta í lægra haldi oft. Ég hef allt of oft þurft að sjá FH lyfta bikarnum. Vonandi getum við snúið því núna og gert eitthvað gott á komandi sumri með FH, stefna á toppinn."


Stjörnutíminn
Baldur var beðinn um að gera tíma sinn hjá Stjörnunni upp að lokum.

„Fáránlega skemmtilegur tími. Flottur hópur og ég hef sjaldan eignast jafn marga nána vini og í þessum hópi, það er dýrmætt. Fjölskyldan býr í Garðabæ og erum komin vel inn í samfélagið hér. Það var gaman að vera mikið á svæðinu og strákarnir mínir eru komnir í félagið og því er ég kannski ekki alveg farinn úr félaginu þar sem þeir verða þar áfram."

„Þetta var ánægjulegur tími þar sem hápunkturinn var að vinna bikarinn, fyrsta bikartitilinn í sögu félagsins. Vonbrigðin voru að ná ekki stóra titlinum með Stjörnunni. Það voru markmiðin þegar ég kom að ná Íslandsmeistaratitlinum. Ég vona að ég hafi skilið eitthvað aðeins gott eftir en núna er leiðin bara í Hafnarfjörðinn. Ég er spenntur fyrir því að taka slaginn með FH,"
sagði Baldur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner