sun 12. janúar 2020 15:55
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
„Merkilegt hvað menn eru duglegir að búa til fréttir"
Valdimar Svavarsson, formaður FH.
Valdimar Svavarsson, formaður FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Steven Lennon fagnar marki.
Steven Lennon fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH, segir að sóknarmaðurinn Steven Lennon sé ekki til sölu.

Valdimar var í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977.

Þar undraði hann sig á fréttaflutningi mbl.is af félaginu. Mbl sagðist í liðinni viku hafa heimildir fyrir því að Valur væri í viðræðum um að fá Lennon.

„Steven Lennon er frábær FH-ingur. Hann er samningsbundinn okkur og það hefur ekkert komið til tals að það breytist. Mér finnst skrítið að Mogginn sé þarna að tala um hluti sem enginn fótur er fyrir. Lennon er í góðu ferli hjá okkur og er að koma sér í stand."

„Lennon er einn af okkar lykilmönnum. Það er engin umræða um að selja hann. Hann er okkar leikmaður. Við ætlum að sýna að við komum sterkari til baka þegar það blæs á okkur," segir Valdimar en fjárhagsmál FH hafa mikið verið í umræðunni í vetur og vandræði félagsins í að standa við launagreiðslur.

Erum á miklu betri stað
Valdimar segir að mikil vinna hafi farið í það hjá FH í vetur að gera reksturinn betri.

„Ég held að ég geti fullyrt að allir hafa fengið sín laun. Við höfum unnið okkar skafl niður og erum búnir að eyða honum í langflestum tilfellum. Við erum á miklu betri stað núna en við vorum á tímabili á síðasta ári."

Er þá einhver annar að stýra félaginu
Valdimar furðar sig líka á fréttaflutningi þess efnis að Hörður Magnússon gæti verið á leið í nýtt starf íþróttastjóra hjá knattspyrnudeild FH.

„Höddi er toppmaður og alltaf velkominn í Kaplakrika. Mér finnst það merkilegt hvað menn eru duglegir að búa til fréttir. Það er þá einhver allt annar að stýra félaginu en ég," segir Valdimar.

Valdimar segir að stjórn FH hafi teiknað upp framtíðarskipulag félagsins og væri að horfa á að bæta við íþróttastjórastöðu en einnig væru uppi hugmyndir að leysa þá stöðu með íþróttastjóraráði.

„Það eru frábærir FH-ingar í kringum okkur sem við viljum nýta kraft og þekkingu til að gera FH sterkari fótboltalega en við erum að auka tekjur og minnka kostnað eins og staðan er í dag og reynum að vera skynsöm í því."
Íslenski boltinn - Staða FH, þjóðarleikvangurinn og leikmenn á flakki
Athugasemdir
banner
banner
banner