Chelsea gæti gert tilboð í Garnacho - Man City vill Cambiaso - Dortmund dregur sig úr baráttunni um Rashford
   fös 12. janúar 2024 09:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Alex verður leikmaður KR - Hafa sett allt af stað og eru stórhuga á markaðnum
Alex Þór Hauksson á leið í KR.
Alex Þór Hauksson á leið í KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ögmundur í KR?
Ögmundur í KR?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Sigurðarson var í gær tilkynntur sem nýr leikmaður KR. Hann kemur heim úr atvinnumennsku eftir að hafa leikið erlendis síðan 2016. Kaupin á Aroni voru fyrstu stóru félagaskiptin hjá KR í vetur.

Næstur á lista er Alex Þór Hauksson sem samkvæmt heimildum Fótbolta.net er á leið í Vesturbæinn. Alex kemur til KR frá sænska félaginu Öster en samningur hans við sænska félagið rann út í lok síðasta árs.

Alex var sömuleiðis orðaður við uppeldisfélagið Stjörnuna, Val og Breiðablik. Hann er 24 ára djúpur miðjumaður sem var í þrjú ár hjá Öster í sænsku B-deildinni og á hann alls að baki fjóra A-landsleiki.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net verður Alex einn af launahæstu leikmönnum deildarinnar og fær risa undirskriftarbónus. Eftirfarandi var sagt um samningstilboð sem Alex hafði fengið í vikunni:

„Hann er víst búinn að fá stjarnfræðileg tilboð hérna heima, sem er skiljanlegt, það vantar alla djúpan miðjumann," sagði fjölmiðlamaðurinn Máni Pétursson í hlaðvarpsþætti sínum.

Í gær heyrðust svo nokkrar slúðursögur um frekari liðsstyrk á leið í KR. Leikmenn sem spila sem atvinnumenn erlendis voru orðaðir við félagið: Ögmundur Kristinsson hjá Kifisia í Grikklandi, Viðar Ari Jónsson sem er hjá HamKam í Noregi og allra viltasta slúðursagan var möguleg heimkoma Guðlaugs Victors Pálssonar sem spilar með Eupen í Belgíu. Fyrr í vetur heyrðist einnig af áhuga KR á Valgeiri Valgeirssyni.

Þá flaug sú slúðursaga að Aron Bjarnason gæti eftir allt saman endað í KR en það verður ekki. Það var fullyrt í gær að hann væri á leið í Breiðablik og samkvæmt heimildum Fótbolta.net er Aron Bjarnason að ganga í raðir Breiðabliks.

Það er ljóst með komu Arons Sigurðarsonar og Alex að KR-ingar eru stórhuga. Þeir eru með alla anga úti eftir að hafa fengið inn alvöru fjármagn í vetur.
Athugasemdir
banner
banner