Kompany vill taka við Bayern - Isak og Brobbey efstir á blaði Arsenal - McKenna orðaður við Chelsea og Man Utd
banner
   fös 12. apríl 2024 12:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Hrottalega vont fyrir þá eftir að hafa þurft að berjast við Breiðablik í öll þessi ár"
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi í fyrsta leiknum gegn ÍA.
Gylfi í fyrsta leiknum gegn ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi er langstærsta nafnið í Bestu deildinni.
Gylfi er langstærsta nafnið í Bestu deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi Þór Sigurðsson byrjaði af krafti í Bestu deildinni þar sem hann skoraði í fyrstu umferð í 2-0 sigri gegn ÍA.

Stærstu fréttir undirbúningstímabilsins voru auðvitað þær að Gylfi samdi á Hlíðarenda. Gylfi er besti landsliðsmaður sem Ísland hefur átt og var hann atvinnumaður lengi í ensku úrvalsdeildinni.

Það var rætt um félagaskipti Gylfa í Niðurtalningunni hér á Fótbolta.net á dögunum en Valsmennirnir Jóhann Skúli Jónsson og Jóhann Alfreð Kristinsson eru auðvitað mjög spenntir að sjá hvernig Gylfi mun standa sig í sumar.

„Þegar maður sá myndirnar var þetta súrrealískt. Auðvitað var búinn að vera einhver kjaftagangur lengi en þegar þetta loksins gerist, þá var þetta eitt af þessum augnablikum sem yfirtók allt í tvo eða þrjá daga," sagði Jóhann Alfreð.

„Það er hálf sorglegt að hann sé að koma heim og hvernig þetta allt saman hefur þróast. En hann er kominn í Val og það er algjör snilld," sagði Jóhann Skúli.

Margir af bestu leikmönnum Íslandssögunnar hafa spilað með Val.

„Við tölum núna um Ásgeir Sigurvins sem 'the one that got away'. Það er stundum talað um þetta Mount Rushmore og þeir gæjar hafa á einhverjum tímapunkti verið í Valstreyju sem er ótrúlega gaman. Maður finnur stemninguna í kringum komu Gylfa og ársmiðarnir ruku út. Svo gefur hann sér tíma til að hitta krakkana og þetta er smá ævintýralegt," sagði Jóhann Alfreð.

Skil FH-inga langbest
Stuðningsmenn annarra félaga eru kannski ekki hoppandi glaðir yfir því að Gylfi hafi ákveðið að fara í Val, og þá kannski sérstaklega stuðningsmenn FH en Gylfi er uppalinn þar.

„Ég skil FH-inga langbest. Það er hrottalega vont fyrir þá að sjá þetta eftir að hafa þurft að berjast við Breiðablik um að eigna sér hann í öll þessi ár. Svo núna gerist þetta. Ég skil einn af mínum bestu vinum, Hödda Magg, mjög vel að hann sé brjálaður yfir þessu. En svona er þetta bara. Þegar hann er að gefa út öll þessi ummæli um. að hann muni enda ferilinn í FH og annað, þá er FH kannski allt öðruvísi en það er í dag," sagði Jóhann Skúli og hélt áfram:

„Hvað ætli Gylfi þekki marga í FH í dag? Eða tengi við? Hann fór frá félaginu 14 ára. Rætur okkar eru mismunandi sterkar."

„Svo er mikilvægur punktur í þessu... Það hefur verið unnið mjög gott starf á Hlíðarenda undanfarin ár og ég held að það skipti máli að Valur hefur verið að þróa í áttina að því sem má kalla atvinnumannaumhverfi. Með því að æfa á morgnana. Það opnar á þennan möguleika að það eru gæjar sem eru vanir þessu umhverfi og finnst það heillandi. Í staðin fyrir að vera í traffíkinni á milli fjögur og sex að fara á æfingar," sagði Jóhann Alfreð.

„Auðvitað á Valur fullt af pening og þeir geta borgað mjög vel. En þetta er klárlega mikilvægt. Ég var að lesa viðtal sem þið tókuð við Kennie Chopart þar sem hann sagði að það erfiðasta við að koma til Íslands væri að mæta hérna og bíða til klukkan fimm eftir æfingu. Þú ert vanur einhverju og þá er gott að koma heim í það sama. Þetta verk sem Valur hefur unnið niður á Hlíðarenda hefur klárlega skilað einhverju," sagði Jóhann Skúli.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.
Niðurtalningin - Gylfi Sig mættur á Hlíðarenda
Athugasemdir
banner
banner
banner