KR og FH mætast á Alvogen-vellinum í Vesturbænum í kvöld í 3. umferð Pepsi-deildar karla.
Bjarni Þór Viðarsson, miðjumaður FH-inga segir leiki þessa liða alltaf vera stórleiki.
Bjarni Þór Viðarsson, miðjumaður FH-inga segir leiki þessa liða alltaf vera stórleiki.
„Þetta eru tvö stórveldi í íslenskri knattspyrnu. Ég býst við mörgum á vellinum og að okkar stuðningsmenn láti vel í sér heyra, enda þeir bestu á Íslandi," sagði Bjarni Þór og vitnar þar með í Mafíuna.
Bjarni Þór þurfti að fara af velli í fyrstu umferðinni en hann segist vera orðinn góður af þeim meiðslum. Allir séu klárir í leikinn í kvöld fyrir utan Sam Hewsson sem er meiddur. Hann segist vera ánægður með byrjun FH-inga í mótinu.
„Sex stig af sex mögulegum er fín byrjun. Það er ætlast til að við vinnum hvern einasta leik en það er ekkert sjálfgefið í þessari deild. Þróttur og ÍA voru mjög skipulögð gegn okkur og það er oft á tíðum erfitt að eiga við það. Við erum ánægðir með byrjunina en eins og Heimir talaði um eftir ÍA-leikinn þá getum við bætt leik okkar."
„Við gerum okkur grein fyrir því að KR-völlurinn er ekki í besta ásigkomulaginu. Þrátt fyrir það verður lítið um áherslubreytingar. Við reynum auðvitað að stoppa KR-inga þar sem þeir eru hvað sterkastir og við gerum allt til að ná í þrjú stig."
„KR-ingarnir eru með frábært lið, verða án nokkurs vafa í toppbaráttunni. Þeir þurfa þrjú stig til að missa ekki liðin of langt frá sér. Þeir mæta eflaust grimmir til leiks á sínum heimavelli og vilja eflaust sýna sig og sanna fyrir sínu fólki," sagði hafnfirski miðjumaðurinn að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Leikur KR og FH hefst klukkan 20:00 á Alvogen-vellinum í Vesturbænum. Hann verður í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net eins og allir aðrir leikir í Pepsi-deildinni. Leikurinn verður einnig í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Í kvöld:
18:00 ÍBV-Víkingur Ó. (Hásteinsvöllur)
19:15 Valur-Fylkir (Valsvöllur)
19:15 ÍA-Fjölnir (Norðurálsvöllurinn)
19:15 Stjarnan-Þróttur R. (Samsung völlurinn)
20:00 KR-FH (Alvogenvöllurinn)
Föstudagur 13. maí
20:00 Breiðablik-Víkingur R. (Kópavogsvöllur)
Athugasemdir