Bayern hefur gert tilboð í Díaz - Liverpool vill Ekitike
   fös 11. júlí 2025 23:57
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Lýsir hversu stórt það er fyrir félagið að vera komið aftur á þennan stað eftir 12 ár"
'Eitt mark getur skilið liðin að og vonandi fellur það með okkur'
'Eitt mark getur skilið liðin að og vonandi fellur það með okkur'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Framarar eru komnir í undanúrslit í fyrsta sinn síðan 2013.
Framarar eru komnir í undanúrslit í fyrsta sinn síðan 2013.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Góð stemning eftir sigurleikinn gegn ÍA um síðustu helgi.
Góð stemning eftir sigurleikinn gegn ÍA um síðustu helgi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Mjög mikilvægt að leikmenn fái trú á það sem við þjálfararnir erum að predika'
'Mjög mikilvægt að leikmenn fái trú á það sem við þjálfararnir erum að predika'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Eru mun betur spilandi núna heldur en þeir voru t.d. á sama tíma í fyrra'
'Eru mun betur spilandi núna heldur en þeir voru t.d. á sama tíma í fyrra'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Fatai á miðjunni er búinn að vera frábær'
'Fatai á miðjunni er búinn að vera frábær'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjórir sigrar í síðustu fimm leikjum og einungis eitt mark fengið á sig.
Fjórir sigrar í síðustu fimm leikjum og einungis eitt mark fengið á sig.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Framgangur liðsins og bætingin er töluvert mikil'
'Framgangur liðsins og bætingin er töluvert mikil'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kyle var á bekknum í síðasta leik, breiddin í Fram liðinu er mikil og samkeppnin er mikil.
Kyle var á bekknum í síðasta leik, breiddin í Fram liðinu er mikil og samkeppnin er mikil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Í bransanum segir maður að allir leikir séu mikilvægir, þetta er stór dagur fyrir okkur Framara og virkilega stór dagur líka fyrir Vestra. Það er um mikið að spila, að spila í bikarúrslitaleik er stórt fyrir leikmenn og félögin, draumur allra að fá að mæta á Laugardalsvöll, fá að tækifæri til að berjast um að komast þangað. Þegar maður er kominn þetta langt í keppninni er þetta mun stærri leikur en aðrir eins og staðan er núna," segir Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, við Fótbolta.net.

Stuðningurinn hjálpar liðinu
Framarar sækja Vestra heim í undanúrslitum Mjólkurbikarsins á morgun. Leikurinn hefst klukkan 14:00 og fer fram á Kerecis vellinum. Leikmenn og þjálfarateymi flýgur til Ísafjarðar í fyrramálið og verða komnir um fjórum tímum fyrir leik ef allar áætlanir standast.

„Við borðum saman, náum smá göngutúr og svo förum við á völlinn, tímaplanið er fínt."

Stuðningsmenn Fram ætla að mæta á leikinn og verið er að smala í rútu.

„Það er bara frábært, lýsir því hversu stórt það er fyrir félagið að vera komið aftur á þennan stað eftir tólf ár. Það eru margir Framarar sem mæta og styðja okkur núna, finnst gaman að horfa á okkur og gaman að sjá okkur vegna vel. Það á við öll lið, við þurfum á stuðningi að halda og það væri gott að hafa marga Framara í stúkunni á morgun; vonandi verða þeir margir. Það er slatti búinn að skrá sig í rútuna, það verður bara stemning og stuðningurinn hjálpar liðiðinu alveg örugglega."

Eins og Rúnar segir hefur Fram ekki farið í undanúrslit síðan 2013 en þá fór liðið alla leið og vann Stjörnuna í bikarúrslitaleiknum. Fram hefur unnið bikarinn átta sinnum.

Það má búast við skák
Hvernig líst Rúnari á Vestra?

„Vestraliðið er búið að vera frábært í sumar, þetta er erfitt lið að spila við, sjaldan einhverjar flugeldasýningar í þeirra leikjum, fá mörk og lokaðir leikir. Þeir eru varnarsinnaðir og við getum verið varnarsinnaðir líka. Það þarf eitthvað að gerast... það þarf að skora mark og vonandi verður þetta opinn og skemmtilegur leikur. Vestri er búinn að koma öllum að óvörum í sumar, voru við topp deildarinnar framan. Þó að það hafi kannski örlítið hallað undan fæti í síðustu leikjum þá er liðið vel samsett, rosalega vel skipulagt varnarlega og þeir stórhættulegir þegar þeir fara fram. Þetta er bikarleikur, eitt mark getur skilið liðin að og vonandi fellur það með okkur."

Að því sögðu, eru ekki talsverðar líkur á að þetta verði einhvers konar skák?

„Jú, líka bara í ljósi aðstæðna, undanúrslit í bikar, það er smá stress og menn vilja ekki gera mistök. Menn eru stundum smeykir í svona leikjum. Það er alveg hætt við því að þetta geti orðið smá skák, allavega framan af leik. Ef annað liðið nær ekki að koma marki í leikinn snemma, þá verður þetta einhver skák en samt hörku leikur. Þeir eru á sínum heimavelli, með fullt af fólki með sér og vilja jafn mikið og við reyna komast í úrslitin."

Bætingin á Vestaliðinu töluvert mikil milli ára
Hver er helsti styrkleiki Vestra og hvað þarf sérstaklega að stoppa?

„Það hafa öll lið sín gæði einhvers staðar, Vestraliðið er ofboðslega sterkt varnarlega; gefa lítil og fá færi á sig. Svo eru þeir gríðarlega sterkir þegar þeir fara hratt fram. Svo hafa þeir oft á tíðum, og jafnvel gegn okkur í fyrri umferðinni í deildinni, tekið yfir leiki. Þeir geta tekið yfir leiki og spilað, eru mun betur spilandi núna heldur en þeir voru t.d. á sama tíma í fyrra. Framgangur liðsins og bætingin er töluvert mikil. Þeir eru með Túfa, Daða, Montiel, allt flinkir leikmenn, Pedersen er búinn að vera mjög góður, Fatai á miðjunni er búinn að vera frábær og í varnarlínunni ertu með Eið Aron, Hansen og Kjeldsen; allt stórir strákar sem eru sterkir í loftinu. Það eru margar hættur, þeir eru stórir og líkamlega sterkir, hafa mörg járn í eldinum. Það er eins og með öll lið, maður þarf að varast marga hluti."

Sjálfstraust og trú myndast með góðum úrslitum
Framliðið er að koma inn í leikinn á mjög góðri siglingu. fjórir sigrar í síðustu fimm leikjum og einungis eitt mark fengið á sig.

„Okkur líður öllum mjög vel með stöðuna, alltaf gaman þegar það hefur gengið vel að undanförnu. Það er sjálfstraust í liðinu og trú á því sem við erum að gera, það hjálpar manni oft yfir erfiða kafla í leikjum. Ef þessi óbilandi trú heldur áfram þá erum við öflugir. Það eru oft margar hliðar á bikarleikjum, þetta er 50-50, annað hvort vinnur þú og heldur áfram, eða tapar og dettur út. Þú mátt ekki gera mikið af mistökum, menn geta óttast eitthvað, verið hræddir við að gera eitthvað sem þeir eru vanir að gera í deildarleik þar sem það er aðeins annað undir, og það getur spilað inn í. Hugarfarið er stór þáttur í þessu."

Hver er meginástæðan fyrir því að Fram er að tengja saman sigra á þessum tímapunkti?

„Persónulega finnst mér mjög mikilvægt að leikmenn fái trú á það sem við þjálfararnir erum að predika: hvaða leiðir við erum að fara. Þegar þær aðferðir heppnast, og kannski oftar en einu sinni, þá eykst trúin á að það sem við erum að gera sé rétt og við séum að fara réttar leiðir. Það skapar að við náum að tengja saman sigra, náum að verjast vel sem lið og sækja saman sem lið, gera það á réttum tímapunktum og á réttum stöðum; vita hvenær við eigum að sækja og hvenær við eigum að verjast. Það eru margir þættir sem spila inn í, en með hverjum leiknum sem þú vinnur og liðið fer aðeins upp töfluna, þá sérðu að það er geta í þessu liði og möguleikar í liðinu, við það eykst trúin. Hún er mikilvæg í þessu."

„Það vonandi jafnar þetta eitthvað út"
Hefur Rúnar áhyggjur af því að mæta með léttleikandi miðju; Simon Tibbling, Frey Sigurðsson og Fred (ef sama byrjunarlið helst) gegn líkamlega sterku Vestraliði?

„Nei nei, ég hef ekki áhyggjur af því. Við erum með þokkalega tanka í vörninni fyrir aftan þá. Á meðan boltinn er á jörðinni erum við flottir með hann. Svo þegar boltinn er í loftinu þurfum við kannski að aðlaga okkur aðeins að því. Ég held það sé allt í fínasta lagi inn á miðsvæðinu. Þú getur valið um það að vera með miðjumenn sem eru líkamlega sterkir, en við erum með þrjá flinka leikmenn inn á miðjunni svo við getum passað boltann betur, haldið honum betur. Það vonandi jafnar þetta eitthvað út."

Betri staða að vera í en ekki
Rúnar segir að allir sem hafi spilað gegn ÍA í síðasta leik séu klárir í leikinn á morgun.

„Það eru allir klárir, mikil samkeppni um stöður í liðinu og í hópnum. Það er góðs viti, við þurfum stundum að hreyfa liðið, hafa alla á tánum og sjá til þess að það sé samkeppni svo að æfingarnar verði betri; það séu gæði í því sem við erum að gera. Það hjálpar mikið að vera með góða breidd í hópnum núna, nánast allir heilir. Það getur skipt máli upp á gæði æfinganna að allir séu heilir og á fullu."

Á móti ÍA voru leikmenn eins og Kyle McLagan og Isra Garcia á bekknum. Hópurinn þinn er breiður, hversu mikill höfuðverkur er að velja þá ellefu sem byrja?

„Það er mjög erfitt, en það er betri staða fyrir mig að vera í heldur en ekki. Engu að síður er oft erfitt að valda mönnum vonbrigðum sem telja sig eiga meira skilið; telja sig eiga vera í liðinu eða hópnum. Ég þarf að vinna mína vinnu eins vel og ég get með það að leiðarljósi að við getum stillt upp besta liðinu þann daginn, því liði sem ég tel að sé samsett af réttum leikmönnunum til að ná í úrslit. Stundum getur það gert það að verkum að einhverjir verða ósáttir."

„Þetta er alltaf erfitt, erfitt alls staðar, en þetta er það sem þarf til, til að takast á við öll skakkaföll sem verða. Það verða alltaf meiðsli á tímabilinu, ekki alltaf hægt að velja úr öllum. Það er mikilvægt að æfingavikan sé góð og þær eru betri þegar allir eru heilir og það er samkeppni, því þá getur enginn slakað á. Svo verður það bara að vera minn höfuðverkur að velja og vinsa úr því hverjir eiga koma með og hverjir ekki. Það er alltaf jafn erfitt, stundum ræður maður við leikmenn og tilkynnir þeim af hverju, og stundum ekki. Þetta er vinna sem er alltaf í hausnum á manni,"
segir Rúnar.
Athugasemdir
banner
banner