
„Tilfinningin er ólýsanleg, algjörlega sturluð," sagði Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, eftir að liðið tryggði sér sæti í úrslitum Mjólkurbikarsins í fyrsta sinn í sögunni eftir sigur á Fram eftir vítaspyrnukeppni.
Lestu um leikinn: Vestri 5 - 3 Fram
„Þetta var jafn leikur. Það sem gerði gæfumuninn voru stuðningsmennirnir. Í svona leikjum er oft svona sem skilur að, við fengum ofboðslega mikinn stuðning og ég held að það hafi ýtt þessu yfir línuna fyrir okkur í dag."
Hvernig leið þér í vítaspyrnukeppninni?
„Vel, við erum með góða spyrnumenn og frábæran markmann. Auðvitað er vítaspyrna eins og að kasta tenging þannig maður veit ekki hvað maður fær," sagði Davíð.
„Geggjaður leikur, vel uppsettur. Mér fannst við vera með svör við því sem þeir ætluðu að gera. Auðvitað fannst mér aðeins vanta upp á sóknarleikinn en samt sem áður sköpum við virkilega góðar stöður og tvö til þrjú dauðafæri."
Leikmenn og stuðningsmenn Vestra munu fagna þessum áfanga vel í kvöld.
„Ég ætla að gefa þeim frí þangað til á mánudaginn. Þeir vonandi sletta aðeins úr klaufunum í kvöld, þeir eiga það skilið. Vonandi fáum eitthvað af stuðningsmönnum líka og við náum að gera smá partí úr þessu. Mér finnst liðið eiga skilið að mæta ekki fyrr en á mánudaginn. Það er frí á morgun og svo bara æfing," sagði Davíð Smári.
Athugasemdir