Bayern hefur gert tilboð í Díaz - Liverpool vill Ekitike
   fös 11. júlí 2025 20:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Davíð Smári: Yrði mjög hissa ef Víkingur kallar Daða til sín
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Góð spilamennska Daða Bergs Jónssonar hjá Vestra hefur verið ein af sögulínum Íslandsmótsins til þessa. Daði var lykilmaður í því að Vestri var við toppinn lengi vel, og mikilvægi hans hefur svolítið sýnt sig að undanförnu þegar hann hefur ekki verið með. Sjö mörk hefur Daði skorað og lagt upp tvö í leikjunum þrettán með Vestra.

Daði er U19 landsliðsmaður sem er á láni frá Víkingi og þeir hafa velt því fyrir sér að kalla hann til baka eins og kom fram í viðtali við Kára Árnason, yfirmann fótboltamála hjá Víkingi, í byrjun vikunnar.

Fótbolti.net ræddi við Davíð Smára Lamude, þjálfara Vestra, í dag en framundan er undanúrslitaleikur í Mjólkurbikarnum gegn Fram. Daði er klár í þann leik eftir meiðsli.

Hafið þið heyrt eitthvað varðandi hans framtíð?

„Nei, og ég endurtek bara það sem ég hef sagt: auðvitað er þetta í höndum Víkinga og ég vona að Víkingur kunni að meta hvað Vestri hefur gert fyrir Daða. Okkar leikur hefur svolítið byggst upp í kringum hann. Það eru ekki mörg félög sem gefa lánsleikmönnum svona stór hlutverk í sínu liði. Auðvitað er það líka Daði sem hefur búið sér inn það hlutverk í liðinu, hefur komið inn í þetta með ofboðslega miklum krafti. Hann er auðvitað mjög kokhraustur, er ekki hræddur við neitt, með þroska á við fullorðinn leikmann," segir Davíð Smári.

„Þetta er í höndum Víkinga, en ég ætla samt að segja að ég yrði mjög hissa ef þeir taka leikmann til sín sem er í svona stóru hlutverki. Ég myndi halda að það væri algjör draumur fyrir þessi stóru félög að vera með lánsleikmenn í svona stórri rullu annars staðar," bætti þjálfarinn við.

Leikur Vestra og Fram hefst klukkan 14:00 á morgun og fer fram á Kerecis vellinum á Ísafirði.
Athugasemdir
banner
banner