Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   mið 12. maí 2021 21:06
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Hálfleikarnir byrjuðu skemmtilega í Árbæ
Fylkir bíður enn eftir fyrsta sigurleiknum.
Fylkir bíður enn eftir fyrsta sigurleiknum.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Fylkir 1 - 1 KR
1-0 Arnór Sveinn Aðalsteinsson ('3 , sjálfsmark)
1-1 Grétar Snær Gunnarsson ('7 )
1-1 Arnór Borg Guðjohnsen ('46 , misnotað víti)
Lestu nánar um leikinn

Fylkir og KR skildu jöfn í síðari leik dagsins í Pepsi Max-deild karla. Leikið var Lautinni.

Leikurinn byrjaði með hvelli því Fylkir tók forystuna strax á þriðju mínútu leiksins.

„Aukaspyrna frá Degi Dan kemur á fjærstöngina, þar er Arnór Borg aleinn og setur hann inn á teiginn. Boltinn fór af varnarmanni KR sýndist mér og lak inn í markið. Heimildir segja að þetta hafi verið sjálfsmark hjá Arnóri Sveini," skrifaði Gylfi Tryggvason í beinni textalýsingu en stutt síðar jafnaði Vesturbæjarstórveldið. Það var Grétar Snær Gunnarsson sem gerði það.

„Aukaspyrna frá vinstri, KR vinnur fyrsta skallann og ná að framlengja boltann á fjær þar sem Grétar Snær er einn og yfirgefinn og neglir honum upp í þaknetið," skrifaði Gylfi og bætti við í kjölfarið:

„Leikurinn fer af stað með miklum látum! Tvö mörk á sjö mínútum, ég ráðlegg liðunum að passa fjærsvæðið í föstum leikatriðum en bæði mörkin hafa komið þaðan. Hef þetta ráð ókeypis."

Leikurinn róaðist töluvert eftir mjög fjöruga byrjun. Seinni hálfleikurinn byrjaði eiginlega eins og sá fyrri því Fylkir fékk vítaspyrnu á upphafssekúndum hans. Arnór Borg Guðjohnsen fór á punktinn en Beitir Ólafsson varði frábærlega frá honum.

Beitir reyndist hetja KR í dag því leikurinn endaði 1-1, hann bjargaði stiginu. Fylkismenn voru líklegri til að taka sigurinn en það datt ekki fyrir þá. Þórður Gunnar Hafþórsson kom í stórkostlega stöðu undir lokin til að skora sigurmark en hann tók einni snertingu of mikið og KR náði að bjarga.

KR er í fimmta sæti deildarinnar með fjögur stig eftir þrjá leiki. Fylkir er í áttunda sæti með tvö stig og bíður enn eftir fyrsta sigurleiknum.

Önnur úrslit í dag:
Pepsi Max-deildin: KA rúllaði yfir Leikni á Dalvík
Athugasemdir
banner
banner
banner