Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fös 12. júlí 2019 08:00
Ingibjörg Hinriksdóttir
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Baráttan endalausa
Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Megan Rapinoe er heimilisvinur á íslenskum heimilum.
Megan Rapinoe er heimilisvinur á íslenskum heimilum.
Mynd: Getty Images
Ada Hegerberg er Evrópumeistari með Lyon en neitar að spila með norska landsliðinu.
Ada Hegerberg er Evrópumeistari með Lyon en neitar að spila með norska landsliðinu.
Mynd: Getty Images
Marta.
Marta.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Að loknu Heimsmeistaramóti kvenna í knattspyrnu er bandaríski leikmaðurinn Megan Rapinoe orðin heimilisvinur á mörgum íslenskum heimilum. Það verður mjög spennandi að sjá hversu margar ungar og upprennandi knattspyrnustúlkur munu skarta fjólubláu hári á Símamótinu um helgina.

Heimsmeistaramótið framleiddi fjöldann allan af stórkostlegum fyrirmyndum auk Rapinoe og má þar nefna hollenska markvörðinn Sari van Veenendaal, Englendinginn LucyBronze og hina mögnuðu Mörtu frá Brasilíu.

Tvær af þessum fjórum sem ég tel upp hér vöktu ekki aðeins athygli vegna knattspyrnulegra hæfileika heldur einnig vegna sterkra skoðana á samfélagslegum málefnum og baráttu fyrir bættum kjörum knattspyrnukvenna um heim allan.

Þurfa konur bara að vera duglegri?
Sú fyrri er hin brasilíska Marta. Ræða hennar ætti að vera skrifuð á vegg allra búningsherbergja, karla og kvenna. „Þetta snýst um meiri löngun, fleiri æfingar, meiri vilja og að vera tilbúin að spila 30 mínútur til viðbótar þegar 90 mínútur eru liðnar.“

Ræða sem þessi ætti að duga til að kveikja í öllum þeim sem elska fótbolta og vilja ná lengra í íþróttinni. Ég hef spilað þessa hvatningarræðu Mörtu alloft og fæ gæsahúð, örlítið ryk í augun og fylltist stolti í hvert sinn.

Megan Rapinoe er síðan af öðru kaliberi, hún kveikir bál í huga knattspyrnukvenna þegar hún talar umbúðalaust til æðsta manns þjóðar sinnar, Donalds Trumps, segist ekki ætla í fjandans Hvíta húsið.

Hún svarar forsetanum fullum hálsi þegar hann sagði að engum hafi enn verið boðið í heimsókn til sín, þyrfti liðið að vinna fyrst! „Ég hef staðið við minn hluta,“ sagði Rapinoe eftir mótið „sjáum til hvað gerist næst.“

Þá gagnrýndi Rapinoe FIFA harðlega fyrir það að setja á tvo aðra úrslitaleiki sama dag og úrslitaleikur HM kvenna fór fram.

Er tími aðgerða er runninn upp?
Fyrir Heimsmeistaramótið stefndu leikmenn bandaríska liðsins US Soccer, Bandaríska knattspyrnusambandinu, vegna launamunar milli kvenna- og karlalandsliðsins.

Samkvæmt samningi hefði hver leikmaður karlaliðsins fengið 1,1 milljón dollara fyrir sigur á heimsmeistaramóti en konurnar fengu 20 þúsund dollara hver eftir mótið í Frakklandi. Í Evrópu hefur þessi launamunur hingað til verið réttlættur með því að karlaliðin afli meiri tekna en kvennaliðin.

Sú er einfaldlega ekki raunin í Bandaríkjunum.

Þar afla kvennaliðin, bæði félagsliðin og landsliðin mun meiri tekna en karlarnir þannig að launamunurinn er eins kynbundinn og verða má. Stuðningsmenn bandaríska liðsins hafa sannarlega staðið á bak við stelpurnar eins og heyrðist á Stade De Lyon leikvellinum þegar bandarísku áhorfendurnir kyrjuðu „EqualPay“ er sigurinn var í höfn.

Þó Rapinoe hafi verið í fararbroddi bandarísku kvennanna þá gekk hún ekki eins langt og besta knattspyrnukona Noregs, Ada Hegerberg, sem hreinlega hefur neitað að leika með landsliðinu þar til launagreiðslur til kvenna- og karlalandsliðanna hafa verið jafnaðar.

Betri fótbolti, meiri fjölmiðlaumfjöllun?
Fjölmiðlaumfjöllun um Heimsmeistaramótið var algjörlega til fyrirmyndar, á það jafnt við um ljósvakamiðla sem og prentmiðla. Af hverju var umfjöllunin meiri? Þar tel ég árangur íslenska kvennalandsliðið bera höfuð ábyrgð. Að hafa leikið í úrslitum EM þrisvar sinnum í röð og verið einni vítaspyrnu frá því að vera á HM 2019.

Allir fjölmiðlar sem ég fylgdist með fjölluðu af mikilli fagmennsku um mótið en ég má þó til með að hrósa Kristjönu Arnarsdóttur og Eddu Sif Pálsdóttur sem báru uppi umfjöllunina á RUV. Þar var sko ekki töluð vitleysan.
Athugasemdir
banner
banner
banner