Marcelo Bielsa, knattspyrnustjóri Leeds United, var sáttur með spilamennsku sinna manna í naumu 4-3 tapi gegn Englandsmeisturum Liverpool fyrr í dag.
„Liverpool gerði okkur mjög erfitt fyrir og við áttum í miklum erfiðleikum með að koma boltanum út af eigin vallarhelmingi. Við gerðum Liverpool líka erfitt fyrir. Við lögðum okkur alla í þetta og vorum jafn góðir og þeir stærsta hluta leiksins," sagði Bielsa við Sky Sports.
Patrick Bamford gerði eitt þriggja jöfnunarmarka nýliða Leeds í leiknum.
„Við erum ánægðir með frammistöðuna en svekktir að hafa ekki náð í úrslit. Ég átti að skora áður en ég gerði markið mitt. Við fengum færi í leiknum og það er mjög jákvætt. Við spilum orkumikinn sóknarbolta með hápressu, svipað og Liverpool gerir," sagði Bamford við BBC.
Að lokum var komið að Mohamed Salah, manni leiksins sem skoraði þrennu í dag. Hann hrósaði nýliðunum fyrir góðan leik.
„Leeds er erfitt lið. Þeir áttu frábæran leik og brugðust virkilega vel við. Ég er ánægður með úrslitin en við verðum að bæta okkur. Við áttum góðan leik, það er mikilvægt fyrir okkur að halda einbeitingu."
Athugasemdir