Lars Lagerback, landsliðsþjálfari Íslands, ræddi við blaðamenn á hóteli landsliðsins í Konya fyrir leikinn gegn Tyrklandi í undankeppni EM 2016 annað kvöld.
Leikurinn gegn Tyrklandi er sá síðasti í undankeppninni og Ísland hefur þegar tryggt sér þátttökuréttinn í Frakklandi. Lagerback er samt sem áður staðráðinn í að ná í sigur þó hann búist við öðruvísi leik en í Laugardalnum, þar sem Ísland vann 3-0.
Leikurinn gegn Tyrklandi er sá síðasti í undankeppninni og Ísland hefur þegar tryggt sér þátttökuréttinn í Frakklandi. Lagerback er samt sem áður staðráðinn í að ná í sigur þó hann búist við öðruvísi leik en í Laugardalnum, þar sem Ísland vann 3-0.
„Þegar það eru svona tvíhöfðar og bara tveir dagar á milli, þá er það alltaf erfitt. En þetta er eins fyrir bæði lið þó að okkar flug hafi verið miklu lengra. En Tyrkland hefur spilað vel í undanförnum leikjum þannig að þetta verður áhugavert," sagði Lagerback við íslenska blaðamenn.
„Þeir voru svolítið opnir varnarlega í fyrri leiknum í Reykjavík og þeir hafa skipt um leikmenn og skipulagt vörnina vel. Það verður erfitt að skora gegn þeim og brjóta þá niður."
Mönnum leið of vel
Lagerback segir þjálfarateymið hafa rennt yfir það sem fór úrskeiðis í seinni hálfleik gegn Lettlandi á dögunum, en Ísland leiddi 2-0 í leikhléi og missti unninn leik niður í 2-2 jafntefli.
„Við skoðuðum þetta vel í fluginu og munum fara yfir það með leikmönnunum í kvöld. Við misstum alveg taktinn í seinni hálfleik og það er mjög erfitt að útskýra af hverju. Það eina sem mér dettur í hug er að við erum nú þegar komnir í úrslitakeppnina og vorum 2-0 yfir í hálfleik, þá hlýtur þetta að vera eitthvað andlegt þó við höfum talað um að halda hreinu," sagði Lagerback.
„Ég held að þetta hafi ekki verið viljandi en þetta er týpískt í fótboltaleik, mönnum líður vel og allir vilja skora, við vorum ekki í góðri stöðu sóknarlega og varnarlega. Ég hef ekki séð svona spilamennsku hjá okkur síðan í seinni hálfleik gegn Króatíu, þetta var ekki venjulega íslenska landsliðið."
Búast má við hörkustemningu á Torku Arena í Konya annað kvöld þegar rúmlega 42.000 Tyrkir mæta og styðja sitt lið. Lagerback telur þó að andrúmsloftið muni ekki ná til leikmanna.
„Ég held nú ekki, við höfum mætt á útivelli þar sem það eru mikil læti og menn styðja sín lið á mismunandi hátt. Þetta virðist ekki trufla strákana svo ég held að þetta verði ekki vandamál," sagði Lagerback.
Athugasemdir