Ögmundur Kristinsson gæti átt von á því að standa á milli stanganna þegar Ísland heimsækir Tyrkland í lokaumferð undankeppni EM 2016 í Konya annað kvöld.
Þessi fyrrum markvörður Fram hefur verið að gera frábæra hluti með Hammarby í Svíþjóð undanfarin misseri og mætir fullur sjálfstrausts til Tyrklands.
Þessi fyrrum markvörður Fram hefur verið að gera frábæra hluti með Hammarby í Svíþjóð undanfarin misseri og mætir fullur sjálfstrausts til Tyrklands.
„Það er búið að ganga mjög vel í Svíþjóð frá fyrsta leik og það er búinn að vera mikill stígandi í liðinu upp á síðkastið, þannig maður er með sjálfstraustið í botni," sagði Ögmundur við Fótbolta.net á hóteli landsliðsins í dag.
„Ég vissi alveg að ég gæti staðið í markinu og staðið mig vel, það var ekkert sem ég hafði áhyggjur af. En vissulega var búið að ganga aðeins illa hjá liðinu og smá hætta á að það yrði einhver fallbarátta, en við erum búnir að losa okkur við hana."
Ögmundur er nokkuð líklegur til að byrja í markinu í fjarveru Hannesar Þórs Halldórssonar aðalmarkvarðar, sem fór ekki með til Tyrklands vegna meiðsla. Hann segist vera klár í slaginn ef kallið kemur.
„Maður er alltaf klár, hvort sem maður sé á bekknum eða ekki. Hvort sem Hannes eða einhver annar sé hérna, þá verður maður alltaf að vera klár. Hvort maður byrji eða ekki, maður verður alltaf að vera tilbúinn," sagði Ögmundur.
„Það er alltaf leiðinlegt að horfa á vin sinn meiða sig, það var mjög leiðinlegt að sjá það og ekki þannig sem maður vill fá tækifærið. En að sjálfsögðu, ef maður fær tækifærið er maður alveg tilbúinn í það."
Ögmundur býst við hörkustemningu í Tyrklandi og segir gaman að spila í slíku andrúmslofti.
„Það verður víst einhver stemning á pöllunum er manni sagt. Það er bara gaman, það er alltaf gaman að spila þegar það er góð stemning. Maður er aðeins orðinn vanur þessu úr Stokkhólms-derbíunum," sagði Ögmundur.
Athugasemdir