Jürgen Klopp mun um áramótin taka við nýju starfi en hann verður yfirmaður fótboltamála hjá Red Bull. Þýski blaðamaðurinn Florian Plettenberg segir að Klopp muni þéna ágætlega á nýja vinnustaðnum.
Klopp greindi frá því í byrjun árs að hann væri á förum frá Liverpool en hann sagði orkuna á þrotum.
Síðasta tímabil var því hans síðasta með Liverpool en eftir það fór hann í verðskuldað frí.
Á dögunum var síðan tilkynnt að Klopp væri á leið í nýtt og öðruvísi starf hjá Red Bull þar sem hann sér um öll fótboltamál hjá Red Bull, sem á félög á borð við Leipzig, Bragantino, Brasil, Salzburg og New York, auk þess að eiga hlut í Leeds United.
Hann hefur störf hjá Red Bull um áramótin og mun þéna 10-12 milljónir evra í árslaun. Það er aðeins minna en hann þénaði á síðustu árum sínum hjá Liverpool, en talið er að hann hafi verið annar launahæsti stjórinn í ensku úrvalsdeildinni á eftir Pep Guardiola með um 18 milljónir evra í árslaun.
Oliver Mintzlaff, forstjóri Red Bull, hefur þverneitað fyrir það að Klopp sé með klásúlu í samningnum sem gefur honum leyfi til að taka við þýska landsliðinu.
Plettenberg fullyrðir að Klopp sé með munnlegt samkomulag við Mintzlaff um að hann megi rifta samningnum ef það kemur upp áhugavert tilboð í þjálfun.
Athugasemdir