Pep vill fá fyrrum leikmann Liverpool - Liverpool fylgist með tveimur Svíum - Grealish orðaður við Tottenham
   þri 12. nóvember 2024 17:25
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arnar um brottreksturinn: Hefði verið mikið sterkari ákvörðun
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands.
Arnar Þór Viðarsson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar var rekinn úr starfi landsliðsþjálfara í fyrra.
Arnar var rekinn úr starfi landsliðsþjálfara í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, hefur lítið sem ekkert tjáð sig um tíma sinn sem landsliðsþjálfara Íslands eftir að hann var rekinn úr starfinu í mars í fyrra.

Hann ræddi hins vegar nýverið við hlaðvarpið Chess After Dark og fór þar yfir tíma sinn með landsliðið sem var vægast sagt stormasamur.

Arnar tók við þjálfun liðsins í desember 2020 og var hann harðlega gagnrýndur á meðan hann var í því starfi. Úrslitin voru ekki nægilega góð en hann tók líka við liðinu á erfiðum tíma þar sem nokkrir leikmenn liðsins voru sakaðir um kynferðisbrot. Öll stjórn KSÍ fór út vegna þess og formaðurinn, Guðni Bergsson, sagði af sér. Þetta var erfiður tími.

Eftir að ný stjórn tók við störfum hjá KSÍ, þá fór Arnar fljótlega að finna fyrir því að það væri vilji fyrir því að skipta honum út. Hann hafi fyrst tekið eftir því þegar Vanda Sigurgeirsdóttir, sem tók við formennsku KSÍ af Guðna, ræddi við Heimi Hallgrímsson um að taka við starfi landsliðsþjálfara árið 2022.

Eftir tap gegn Bosníu snemma árs 2023, þá vissi Arnar að tíma hans í starfinu væri lokið. Hann var farinn að finna það á sér að næsti tapleikur yrði hans síðasti leikur með liðið, það væri búið að ákveða það.

„Þú finnur 'vibe-ið' í stjórn og þeim sem eru í kringum liðið. Tapið gegn Bosníu var erfitt. Það eru hlutir í þeim leik sem ég myndi aldrei gera aftur," sagði Arnar en hann setur spurningamerki við tímapunktinn sem hann var rekinn. Undankeppni fyrir EM var þá nýhafin. Hann segir að stjórnunin hjá KSÍ hafi ekki verið góð í þessu tilfelli; ákveðnar raddir hafi orðið háværar og ákvörðunin tekin á gölnum tímapunkti.

„Ef þú spyrð einhvern sem var í stjórninni þá segja þau að það hafi aldrei verið búið að ákveða þetta. Það voru ákveðnar raddir sem náðu inn til Vöndu og náðu að snúa ekki bara henni, heldur restinni af stjórninni. Þá hefði verið betra fyrir alla, og sérstaklega fyrir nýjan þjálfara, að fá að byrja undankeppnina. Ef maður er þá að hugsa um hvað er best fyrir íslenska landsliðið."

„Það hefði verið mikið sterkari ákvörðun hjá Vöndu og stjórninni að gera það þá. Mér fannst þetta ekki vera sterk stjórnun. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir öllum sem voru að vinna fyrir KSÍ á þessum tímapunkti. Tímasetningin var algjörlega galin," sagði fyrrum landsliðsþjálfarinn en hann segir fyrir hvern og einn að meta hvort þetta hafi verið rétt ákvörðun.

Arnar segir að það hafi verið erfitt andlega að vera landsliðsþjálfari á þessum tíma og segist hann vera stoltur að hafa komist í gegnum þetta. „Á ákveðnum tímapunktum var þunginn á öxlunum ansi mikill," segir Arnar en hann starfar í dag sem yfirmaður fótboltamála hjá Gent í Belgíu.


Athugasemdir
banner
banner
banner