Heimild: Göteborgs-Posten
Kolbeinn, 24 ára, hefur verið mikilvægur hlekkur í yngri landsliðum Íslands og á þrjá A-landsleiki að baki.
Sænski miðillinn Göteborgs-Posten hefur gefið öllum leikmönnum IFK Göteborg einkunnir eftir mikið vonbrigðatímabil hjá félaginu, sem rétt bjargaði sér frá falli úr efstu deild sænska boltans.
Gautaborg bjargaði sér frá falli á markatölunni einni, þar sem liðið endaði jafnt Varnamo á stigum. Bæði lið voru með -10 í markatölu, en Gautaborg hafði tekist að skora þremur mörkum meira á tímabilinu og bjargaði sér á fleiri skoruðum mörkum.
Kolbeinn Þórðarson var meðal bestu leikmanna Gautaborgar á tímabilinu og fær hann 8 í einkunn fyrir sitt framlag. Honum er hrósað sem einum af fáum björtu punktunum í liðinu, en Kolbeini tókst að skora þrjú mörk og gefa sex stoðsendingar í 27 leikjum þrátt fyrir að spila sem djúpur miðjumaður.
Aðeins einn annar leikmaður liðsins fær 8 í einkunn fyrir sinn þátt, en það er hinn 22 ára gamli Paulos Abraham sem skoraði 7 mörk í 22 deildarleikjum spilandi í fremstu víglínu. Hann endaði sem markahæsti leikmaður Gautaborgar á tímabilinu.
Besti leikmaður Gautaborgar á tímabilinu var miðjumaðurinn bráðefnilegi Malick Yalcouyé, sem var seldur til Sturm Graz fyrir metfé á miðju tímabili. Hann fær 10 í einkunn fyrir sinn þátt í 11 deildarleikjum í Svíþjóð.
Athugasemdir