Hinn bráðefnilegi Haukur Örn Brink er búinn að skrifa undir fjögurra ára samning við Stjörnuna eftir að hafa brotist fram í sviðsljósið í fyrra.
Sumarið 2023 lék Haukur Örn aðeins tvo leiki fyrir KFG í 3. deildinni en í fyrra fékk hann tækifæri með aðalliði Stjörnunnar og lét ljós sitt skína, þar sem honum tókst að skora 5 mörk í 14 leikjum í Bestu deildinni.
Haukur er fæddur 2005 og verður því tvítugur á þessu ári. Hann leikur sem vinstri kantmaður að upplagi verður gríðarlega spennandi að fylgjast með honum í sumar.
„Haukur hefur verið mikilvægur leikmaður í liði Stjörnunnar og sýnt stöðugleika, fagmennsku og mikinn metnað innan jafnt og utan vallar," segir meðal annars í tilkynningu frá Stjörnunni.
„Við óskum Hauki til hamingju með framlenginguna og hlökkum mikið til þess að fylgjast áfram með hans þróun á vellinum!"
Athugasemdir