Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mán 13. maí 2019 16:15
Haraldur Pálsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Vetrarvellir og undirbúningstímabil ÍBV
Haraldur Pálsson
Haraldur Pálsson
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Mynd: Raggi Óla
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Enn eitt árið byrjar knattspyrnusumarið illa hjá karlaliði ÍBV. Ýmislegt hefur verið prufað í undirbúningi liðsins til að forðast þessa slöku byrjun, sem er orðin landlæg staðreynd og mikill þröskuldur fyrir frekari landvinninga þessa félags í Íslenskri knattspyrnu. Hópurinn hefur aldrei byrjað fyrr að æfa saman í einu lagi en nú, val á leikmönnumvar takmarkað við búsetuskilyrði frá janúar í Eyjum. En áður var reynt að æfa í tvennu lagi til að hafa möguleika á leikmönnum með búsetu, fjölskyldu eða í skóla á höfuðbogarsvæðinu.

Eins og frægt er orðið, þá er undirbúningstímabilið fyrir íslenskudeildina eitt það lengsta í heimi og hefst í nóvember hjá flestum félögum, en fer af stað fyrir fulla alvöru í byrjun janúar. Árið hefst með fótbolta.net mótinu og síðan hefst Lengjubikarinn í febrúar. Þótt ótrúlegt megi virðast þá eru liðin dæmd og metin eftir þessum mótum að miklu leyti og kannski eðlilega, enda enginn annar kvarði til að spá í spilin. En aðstöðumunur félaganna fyrir vetrarleiki sína er gríðarlegur. ÍBV er án vetrarvallar og á því engan heimaleik í þessum mótum, Landeyjahöfn hefur á sínum 9 vetrum verið meira og minna lokuð yfir vetrarmánuðina. Sem hefur leitt til þess að ÍBV þarf að fara alla sína leiki í 3 tíma siglingu og spila á velli í grennd við mótherjann, því félagið getur ekki tekið á móti neinu liði. Til að hagræða í rekstri er liðið oftast látið fara að morgni leikdags í Herjólf spila leik um hádegisbilið og sigla svo til baka seinnipartinn. Íslensk veðrátta getur oft á tíðum gert þessar siglingar ansi erfiðar, sér í lagi fyrir utanaðkomandi leikmenn.

Þetta verður til þess að úrslitin verða ekki vænleg, en það sem verra er að liðið nær ekki að æfa sinn leik almennilega og er kannski með sjóriðu, enn að stíga í ölduna þegar verjast á skyndisókn andstæðingsins. Liðið þarf að fara flestar helgar með Herjólfi í Þorlákshöfn til að keppa á mótum eða æfa spilamennsku liðsins, það er tímafrekt og oft á tíðum erfitt. Veturinn er því langur fyrir leikmennina og ef búið er að skipuleggja æfingaleik í apríl á grasvöllum félagsins fyrir mótið í Vestmannaeyjum, þá skal Landeyjahöfn vera orðin klár. Því annars er leikurinn einfaldlega blásinn af, þar kemur reyndar til að ferðir Herjólfs til Eyja bjóða einfaldlega ekki uppá dagsferð til Eyja frá Þorlákshöfn. Bæði núna og 2017 varð það raunin ,ÍBV tók ekki æfingaleik rúmum tveimur vikum fyrir mótið, vegna samgönguörðugleika við ofangreint skipulag.

Hvað er til ráða? Áhugavert er að skoða efstu þrjár deildirnar í íslenskri karla knattspyrnu og telja fjölda vetrarvalla á þeirra svæði eða í þeirra sveitarfélagi.

Í annarri deild eru einungis 4 félög sem hafa engan vetrarvöll á sínu svæði.

Í fyrstu deild er aðeins 1 félag og í efstu deild eru þau 2, ÍBV og Grindavík.

Grindavík getur hins vegar ekið í Reykjaneshöllina með lítilli fyrirhöfn, Magni Grenivík getur farið til Akureyrar í Bogann. Meðan ÍBV fer oftar en ekki í Akraneshöllina, til að keppa sína leiki í þessum mótum.

Hvað geta heimamenn gert? Byggt vetrarvöll, hvort sem það er stækkun hálfu hallarinnar, lagning gervigrasvallar á Týsvöll, Þórsvöll eða Hásteinsvöll.

Hvað geta landsmenn gert? Lagað samgöngurnar, klárað rannsóknina á jarðgöngum.

Myndi tilkoma vetrarvallar í Eyjum hugsanlega einfalda félaginu að sækja sterkari leikmenn sem þyrftu ekki að fara hverja helgi í Herjólf til að keppa? Myndi það bæta undirbúning liðsins, að geta keppt innan hópsins á velli í fullri stærð, jafnvel gegn KFS? Gæti slíkur völlur aukið áhuga íbúa á liðinu, sem gætu nú verið búnir að læra nöfn nýju leikmannanna fyrir fyrstu umferð Íslandsmótsins?

Tímabilið í fyrra byrjaði með svipuðum hætti og í ár, liðið var einungis með 2 stig eftir fyrstu 5 umferðirnar. ÍBV endaði hins vegar í 6. sæti og var 3 sigrum frá því að verja Evrópusætið.

Á myndinni hér að neðan er lausleg rannsókn höfundar, á gervigrasvöllum liðanna á þeirra umráðasvæði.

Höfundur er fyrrverandi stjórnarmaður meistaraflokksráðs ÍBV til 5 ára.

Haraldur Pálsson
Athugasemdir
banner
banner