Fótboltinn veltir gríðarlegum fjármunum og það er dapurlegt að mikil spilling hefur fylgt á eftir. Það er sama hvort um er að ræða litlar stofnanir eins og KSÍ eða þær allra stærstu eins og FIFA. Sumir halda ef til vill að þetta ástand sé óhjákvæmilegt en þó svo að spillingarvarnir gætu verið mun betri þá er verið að gera suma spillta forystu menn ábyrga og afl stuðningsmanna má ekki vanmeta. Þeir hafa sýnt krafta sína eins og í mótmælunum gegn fyrirhugaðri stofnun Ofur-deildarinnar og skipuleggjendur þurftu að hætta við aðeins þremur dögum eftir að hafa tilkynnt um deildina.
Svartir sauðir
Saga fyrrverandi stjórnarmanna FIFA (Alþjóða Knatsspyrnusambandið) og UEFA (Evrópska Knattspyrnusambandið) er vel þekkt meðal knattspyrnu unnenda en Sepp Blatter fyrrverandi forseti FIFA og Michel Platini fyrrverandi forseti UEFA voru reknir eftir að upp komst um spillingarmál þeirra. Þeir voru kærðir í Sviss meðal annars fyrir ólöglega greiðslur frá Blatter til Platini.
Eitt af hlutverkum Sepp Blatters var að leiða nefnd til að velja þau lönd sem fengu að halda Heimsmeistaramótið í knattspyrnu og þá má segja að spillingin hafi farið úr böndunum.
Bixað og brallað með Heimsmeistarakeppnina
2010 var kosið um staðsetningu á HM keppninni fyrir árin 2018 og 22. Það voru fjögur Evrópu lönd sem bitust um að fá keppnina 2018 og fimm um keppnina 2022, þrjú frá Asíu, eitt frá Bandaríkjunum og eitt frá Ástralíu.
Rússland vann kosninguna um HM 2018 og það þrátt fyrir að vera einræðisríki sem meðal annars viðurkennir ekki samkynhneigð. Mikilvægt er að það komi fram að Rússland hafði ekki ráðist inn í Úkraínu til þess að taka yfir Krím skagann á þessum tíma en aftur á móti hafði það gerst árið 2014 án þess að nein viðbrögð yrðu frá FIFA.
Katar unnu svo kosningarnar fyrir HM 2022 þrátt fyrir langa sögu mannréttindabrota. Þar er samkynhneigð beinlínis ólögleg og trúfrelsi ekki í lögum og bannað að ganga af múslimatrú. Mjög þungar refsingar eru við brotum á þessum lögum og má búast við dauðadómum þar sem menn eru líflátnir með því að ganga fyrir aftökusveit
Kynlíf utan hjónabands er ólöglegt eins og að drekka áfengi. Refsing við þessum brotum er hýðing allt frá 40 til 100 svipuhöggum . Enn fleiri mannréttindabrot eru stunduð í Qatar en ég læt þetta duga sem dæmi.
Þetta hefðu átt að vera nægar ástæður til þess að útiloka Qatar. En svo var ekki og uppbygging hófst af fullum krafti
Samtals hefur þjóðin flutt inn um miljón verkamenn til að byggja velli og innviði sem er u.þ.b. helmingur af íbúafjölda Katar. Aðstæðurnar sem þessir verkamenn búa við eru skelfilegar og mögulegt er að allt að 4000 þeirra muni láta lífið áður en að sparkað verður í bolta í Qatar. Og það er mögulega lágt mat þar sem aðrar heimildir telja að um hærri tölu geti orðið að ræða.
Sepp Blatter þáverandi forseti FIFA sagði með aðdáun þegar það var kosið um keppnina „Þegar ég var fyrst í Katar bjuggu aðeins 400.000 manns hér en nú eru 1,6 miljón“.
Árið 2013 ákvað FIFA að rannsaka aðstæður verkamannana en komust að þeirri niðurstöðu að gera ekkert.
FIFA og kosninganefndin gátu ekki lengur haldið þessari spillingu leyndri og til að gera langa sögu stutta urðu 11 af þeim 22 sem sátu í kosningarnefndinni , sektaðir, reknir, settir í bann eða ákærðir fyrir spillingu og þar á meðal þeir Sepp Blatter og Michel Platini.
Gianni Infantino tók við forstæti FIFA og Alexander Ceferin tók við UEFA. Þessu var almennt fagnað í knattspyrnuheiminum og búist við að nú yrði tekið á spillingunni en því miður varð svo ekki.
Þessi spillingarmál komu upp á yfirborðið árið 2016 og þrátt fyrir það fór HM í Rússlandi fram 2018 og ekkert mun stöðva HM í Katar.
Ofurdeildin brotlendir
FIFA og UEFA hafa alls ekki einokað spillinguna í knattspyrnunni því eigendur og forsetar félagsliða hafa svo sannarlega tekið þátt í gamninu og aldrei var það ljósara en þegar 12 af stærstu liðum evrópu kynntu evrópsku ofurdeildina þann 18.apríl 2021. Þessi deild átti að vera „einkaklúbbur“ þessara félaga þar sem t.d. væri ekki hægt að falla eins og tíðkast í öllum öðrum deildum í heimi nema í Bandaríkjunum þaðan sem „módelið“ er augljóslega tekið.
Stjórnarmenn notuðu Covid faraldurinn sem afsökun og sögðu að þetta væri nauðsyn fyrir fjárhag þeirra. Einnig héldu þeir fram að þetta væri gert fyrir áhorfendur til þess að færa knattspyrnuna upp á hærra svið og gera leikinn betri.
Það varð hreinlega allt brjálað. Svona áttu fótboltamót ekki að vera og peningagræðgin skein í gegn illa falin.
Stuðningsmenn voru fljótir að bregðast við og t.d. voru hörð mótmæli voru fyrir leik Liverpool gegn Leeds 19.apríl þar sem um 700 stuðningsmenn mættu og fyrir leik Chelsea gegn Brighton 20.apríl þar sem yfir 1000 manns mættu og seinkuðu leiknum töluvert.
Mótmælin breiddust út til annarra félaga og árangurinn má sjá á því að mótmælendum Chelsea leiknum var tilkynnt að liðið væri að draga sig úr keppninni og sólarhring síðar var keppnin blásin af.
Spænsku félögin 2 Real Madrid og Barcelona hafa þó enn ekki sagt skilið við þessar hugmyndir og halda því fram að viljinn fyrir ofurdeildinni sé enn til staðar. Það er mikilvægt að gera ekki þessi félög að sökudólgum eingöngu heldur er mikilvægt að stuðningsmenn muni að öll 12 félögin samþykktu þetta á sínum tíma og hefði ekki verið fyrir harða mótspyrnu aðdáanda hefði deildin orðið að veruleika.
Meistaradeildin tekur breytingum
UEFA undir stjórn Ceferin fordæmdi ofurdeildina og hótaði jafnvel lögsókn. En í skjóli fjölmiðla farsans kynntu þeir breytingar á Meistaradeildinni einungis degi eftir að ofurdeildin var kynnt.
Þessi breyting skyldi hefjast tímabilið 2024/25. Breytingarnar eru þessar: 36 lið koma í stað 32, ein deild í stað 8 riðla og 8 leikir gegn 8 andstæðingum í stað hefðbundinna 4 liða riðla.
Gamanið heldur áfram því að lið sem endar í 9. til 24. sæti spila í tveggja leikja úrslitakeppni til að komast í 16 liða úrslit. Þetta þýðir að fyrir þau 16 lið mun leikjafjöldinn næsum tvöfaldast.
Fyrir utan að gera mótið mun flóknara og erfiðara þá má sjá eina skýra stefnu í þessu og það er að græða meira á mótinu sem er nú þegar arðbærasta mót UEFA. Það er gert með því að fjölga leikjum sem þýðir meira sjónvarpsáhorf og meiri pening frá bakhjörlum auk þess sem að fyrirkomulagið getur virkað sem einskonar öryggisnet fyrir stærstu félögin.
Spilling er stórt vandamál í knattspyrnunni og hamlar þróun hennar. Forríkum einstaklingum hefur tekist að peningagera tilfinningar og menningu knattspyrnuaðdáenda. Ef að viðskiptaaðferð byggir sífellt meir á græðgi og spillingu þá hlýtur hún að eiga sér takmörk þar sem að hagnaðurinn byggir alfarið á fólki sem einungis hefur áhuga á íþróttinni sjálfri. Átökin um ofurdeildina sýndu ef til vill að komið er að ákveðnum þolmörkum.
Í þessum 3 stuttu greinum hef ég rakið sögu knattspyrnu reglna og hvernig þær hafa þróast íþróttinni bæði til góðs og ills og síðan þessa grein um spillingu í knattspyrnunni. Knattspyrnan er íþrótt sem stöðugt er í þróun og framtíðin er björt svo lengi sem að tekið er tillit til óska og væntinga aðdáenda frekar en að viðskipta og hagnaðarsjónarmið taki öll völd.
Fyrsta grein: Reglurnar sem að við elskum að hata
Önnur grein: Tæknin og fótboltinn