Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mið 11. maí 2022 16:00
Haraldur Örn Haraldsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Reglurnar sem að við elskum að hata
Haraldur Örn Haraldsson
Frímúrara kráin
Frímúrara kráin
Mynd: Freemasons tavern. Olíustunga úr dagblaði
IFAB
IFAB
Mynd: IFAB
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson

Um fátt er rifist af jafn mikilli heift og ástríðu eins og dóma og reglur í knattspyrnu og það er vissulega hluti af leiknum. Sumir hafa jafnvel langmest gaman af því. Knattspyrnan er hátt í 200 ára gömul og reglur leiksins hafa tekið miklum breytingum og er sú saga mjög áhugaverð.


Það hófst á kránni

Í stórum dráttum má segja að grunnur alþjóðlegra fótboltareglna hafi verið lagður á frímúrara kránni í Blackheath á Englandi árið 1863. Þar voru settar 13 reglur skrifaðar niður í minnisbók Ebenezer Morley sem varð fyrsti ritari fyrsta fótboltasambandsins sem við þekkjum undir nafninu FA. Þar var meðal annars stærð vallarins ákveðin og stærð marksins sem hafði enn enga þverslá. Bannað var að færa boltann með hendinni og fella andstæðinginn með að sparka í sköflung hans en þetta var gert til að aðskilja leikinn frá rugby.

 23 árum seinna árið 1886 urðu önnur tímamót þegar IFAB var stofnað af bresku aðildarfélögunum og tók sér það hlutverk að bera ábyrgð á lögum og reglum knattspyrnunnar sem var að breiðast út um heiminn á ógnarhraða. Aðildarfélögin voru ensku, skosku, velsku og norður írsku samböndin og hafa þau stjórnað reglum leiksins frá þeim tímapunkti til dagsins í dag. Það er ekki fyrr en 1913 sem FIFA bætist við sem rödd allra annara aðildarfélaga í heiminum. FIFA hefur 4 atkvæði en hin félögin hafa hvert 1 og 6 atkvæði þarf til að samþykkja reglur.

 Þetta eru varðhundar knattspyrnureglnana og í stuttu máli má segja að tilgangur og þróun þeirra hafi það að markmiði að gera leikinn skemmtilegri, hraðari, sanngjarnari og auka möguleika á því að fleiri mörk verði skoruð.

Breytingar sem gera leikinn betri

 Sem dæmi um vel heppnaðar breytingar sem sannarlega hafa gert leikinn betri má nefna að árið 1912 var markmönnum bannað að hlaupa út um allan völl og taka boltann með höndunum nú máttu þeir aðeins gera það innan vítateigs.

Árið 1925 var rangstæðureglunni breytt úr þriggja manna reglu yfir í tveggja manna þ.e.a.s. að leikmaður er réttstæður á meðan það eru 2 andstæðingar milli hans og marksins t.d. markmaður og varnarmaður. Þessi regla er augljóslega sóknarmanni í hag sem hefur þá betri möguleika að komast í marktækifæri.

Ef við hoppum töluvert fram í tímann til ársins 1990 þá var önnur mikilvæg breyting gerð á rangstöðureglunni en þá var sóknarmaður réttstæður ef hann var samsíða næstaftasta varnarmanni (markmaður er oftast sá aftasti). Á sama ári var ákveðið að brot á sóknarmanni í augljósu marktækifæri væri brottrekstrarsök af vellinum. Rautt spjald!

Síðasta stóra breytingin á knattspyrnureglunum var árið 1992 en þá mátti varnarmaður ekki lengur senda á markmann og markmaður taka boltan upp með höndunum. En það hafði verið misnotað til að tefja leikinn þannig að varnarmenn og markmenn gátu spilað sín á milli sem var alveg ævintýralega leiðinlegt.

Meiri sóknarbolti

 Allar þessar breytingar sína okkur ákveðna tilhneigingu. Hún er sú að sóknarmönnum sé gefið aukið tækifæri á kostnað varnarmanna sem gerir leikinn augljóslega hraðari og skapar fleiri marktækifæri. Það gerir leikinn skemmtilegri fyrir áhorfendur og það þarf varla að taka það fram að atvinnumannaknattspyrna er ekkert án áhorfenda.

Hér hefur verið fjallað um áhrif reglubreytinga í gegnum árin. Í næstu grein ætla ég að skoða hina hliðina. Áhrifin hafa ekki alltaf verið jafn jákvæð og hagsmunir íþróttarinnar og áhorfenda ekki alltaf verið hafðir í fyrirrúmi.


Athugasemdir
banner
banner
banner