Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   lau 13. júlí 2024 17:51
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Rafael Victor afgreiddi Mosfellinga með tvennu
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Afturelding 0 - 3 Þór
0-1 Rafael Victor ('8, víti)
0-2 Vilhelm Ottó Biering Ottósson ('20)
0-3 Rafael Victor ('38)

Lestu um leikinn: Afturelding 0 -  3 Þór

Afturelding og Þór áttust við í seinni leik dagsins í Lengjudeild karla og úr varð afar skemmtileg og opin viðureign þar sem bæði lið fengu mikið af færum.

Þórsarar tóku forystuna snemma leiks þegar Rafael Victor skoraði úr vítaspyrnu sem var gefin heldur ódýrt að mati fréttamanns Fótbolta.net sem var staddur á svæðinu.

Afturelding fékk nokkur dauðafæri til að jafna leikinn en tókst ekki að skora, þess í stað tvöfaldaði Vilhelm Ottó Biering Ottósson forystu Akureyringa á 20. mínútu. Vilhelm skoraði eftir einfalt spil Þórsara í gegnum götótta vörn Aftureldingar.

Mosfellingar reyndu að svara fyrir sig en tókst ekki ætlunarverk sitt. Rafael Victor skoraði þess í stað sitt annað mark í leiknum til að koma Þór í þriggja marka forystu á 38. mínútu. Birkir Heimisson átti stóran þátt í markinu með magnaðri sendingu innfyrir vörn Aftureldingar, þar sem eftirleikurinn var auðveldur fyrir Ragnar Óla Ragnarsson og Rafael.

Afturelding gerði þrefalda skiptingu í hálfleik og fengu heimamenn góð færi til að minnka muninn í upphafi síðari hálfleiks, en þau fóru öll forgörðum. Leikurinn róaðist niður í kjölfarið en bæði lið fengu þó góð færi til að bæta mörkum við leikinn.

Þórsarar björguðu á línu á 79. mínútu og fjaraði leikurinn út á lokakaflanum. Lokatölur 0-3 fyrir Þór sem nær sér í mikilvæg stig á viðkvæmum tímapunkti tímabilsins.

Þór er með 17 stig eftir 12 umferðir og situr í 5. sæti á markatölu. Afturelding er áfram í 9. sæti með 14 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner