New York Times birti á dögunum mjög skemmtilega grein um Bodö/Glimt sem er að verða norskur meistari í fyrsta skipti. Bodö/Glimt hefur verið með gífurlega yfirburði á þessu tímabili og skorað 84 mörk í 24 leikjum.
Í grein New York Times er fjallað ítarlega um Bjorn Mannsverk, hugarþjálfara Bodö/Glimt. Bjorn var í norska hernum áður en hann tók við sem hugarþjálfari Bodö/Glimt árið 2017.
Bjorn hefur ekki mikinn áhuga á fótbolta en hann hefur hjálpað leikmönnum Bodö/Glimt mikið. Fyrir æfingar taka leikmenn til að mynda hugleiðslu saman.
Alfons Sampsted, leikmaður U21 landsliðs Íslands, er á meðal leikmanna Bodö/Glimt.
„Við erum með valfrjálsa hugleiðslu. Við mætum fyrir æfingu og hugleiðum saman. Það er hluti af því að byggja upp góða einbeitingu," sagði Alfons.
„Við erum með hugarþjálfara og það er ekki skylda að mæta til hans. Það er valfrjálst. Ég hef nýtt mér þetta aðeins og hann 'challengar' þig á annan máta. Hann 'challengar' þig til að takast á við sjálfan þig líka, ekki bara við fótbolta hlutann."
„Öll vandamál eru tekin upp um leið með hugarþjálfaranum og það hafa ekki komið nein vandamál yfir tímabilið. Maður hefur upplifað það hjá liðum að það komi upp lítið drama hér og þar en það hefur ekkert komið hér," sagði Alfons.
Smelltu hér til að lesa góða grein New York Times
Sjá einnig:
Alfons tekur þátt í ótrúlegu ævintýri - „Hef aldrei upplifað annað eins"
Athugasemdir