Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mið 13. nóvember 2024 21:34
Ívan Guðjón Baldursson
Björn Sigurbjörnsson ráðinn til Víkings R. (Staðfest)
Mynd: Víkingur R.
Björn Sigurbjörnsson hefur verið ráðinn inn sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Víkingi R. sem leikur í Bestu deildinni.

Björn er uppalinn Víkingur sem býr yfir góðri reynslu úr íslenska fótboltaheiminum, þar sem hann lék fyrir Aftureldingu, Þrótt R. og Leikni R. á ferli sínum sem fótboltamaður, auk Víkings R. og Berserkja.

Björn þjálfaði yngri flokka samhliða ferli sínum sem fótboltamaður á Íslandi og 2011 var hann ráðinn til starfa sem aðstoðarþjálfari hjá kvennaliði Kristianstads í efstu deild sænska boltans. Þar starfaði hann undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur og mynduðu þau saman gríðarlega sterkt þjálfarapar sem náði flottum árangri með félagið.

Eftir tíu ár hjá Kristianstad flutti Björn heim til Íslands og tók við stjórn hjá kvennaliði Selfoss, en gat lítið gert til að koma í veg fyrir slæmt gengi innan vallar þar sem margir af bestu leikmönnum Selfyssinga fengu samninga hjá stærri félögum. Hann stýrði Selfossi í tæplega þrjú ár og reynir nú fyrir sér sem aðstoðarþjálfari hjá Víkingi.

Björn, eða Bjössi, er þekktur fyrir að gefa ungum leikmönnum tækifæri og ríkir mikil eftirvænting að fá hann til starfa í Fossvoginn.

„Það er því af mikilli hamingju sem Víkingar fagna komu Bjössa, enda hefur fjöldi Víkinga notið hans leiðsagnar bæði sem þjálfara og fyrrum kennara i Réttó," segir meðal annars í tilkynningu frá Víkingi.

„Velkominn heim Bjössi, velkominn í Hamingjuna!"
Athugasemdir
banner
banner
banner