
Fyrir helgi var tilkynnt að reynsluboltinn Alexander Veigar Þórarinsson ætlaði sér að taka slaginn með Grindavík í Lengjudeildinni á komandi tímabili. Alexander er 34 ára miðjumaður sem „lagði skóna á hilluna" eftir tímabilið 2020 og spilaði með GG í 4. deildinni síðustu tvö sumur.
Hann hefur alls leikið 241 leik í deild og bikar á ferlinum og skorað í þeim 47 mörk. Alexander er uppalinn hjá Grindavík en hefur einnig leikið með Fram, Reyni Sandgerði, BÍ/Bolungarvík og Þrótti R. á feril sínum í meistaraflokki sem hófst árið 2005.
En hvernig kemur til að Alexander hefur ákveðið að taka fram skóna á nýjan leik?
„Ég var plataður í að koma á æfingar með Grindavík og fann að ég hafði þetta ennþá í mér. Svo fann ég neistann koma hægt og rólega eftir að ég byrjaði að æfa á fullu," sagði Alexander við Fótbolta.net í gær.
„Í aðdragandanum talaði ég við Guðjón Pétur, Hauk formann og auðvitað Helga þjálfara. Það var ekkert eitt samtal frekar en annað sem náði mér heldur frekar hljóðið í þeim öllum. Mér líst mjög vel á þjálfarateymið og leikmannahópinn, það eru allir tilbúnir í að leggja allt í sölurnar í sumar og lyfta félaginu okkar á hærra plan."
Hvernig hafa síðustu tvö sumur verið?
„Þau hafa verið alveg meiriháttar með GG og Barónum FC (Pollamótsmeistarar 2021). Aðeins öðruvísi að vera í 4. deildinni en ákvörðun sem ég er mjög ánægður með að hafa tekið."
Tímabilið 2006 lék Alexander nokkrar mínútur með Óskari Erni Haukssyni sem samdi við Grindavík á dögunum. Er Alexander spenntur að heyra tíðindin með Óskar og að fá að spila meira með honum?
„Já alveg 100%, ég þekki Óskar mjög vel og hann er eðal drengur. Það þarf ekkert að fara yfir það hvað hann er góður í fótbolta, hann kemur með fullt af eiginleikum í þennan hóp sem við munum græða á."
Hvernig er standið?
„Ég hef alltaf hugsað vel um skrokkinn á mér og er í fínasta standi. Það að endast í fótboltaleik á hárri ákefð kemur svo bara með tímanum og meiri leiktíma. Svo hafa þeir félagar Óli Baldur og Lárus í Gyminu Grindavík látið mig púla vel síðustu misseri," sagði Alexander að lokum.
Hin hliðin:
Hin hliðin - Alexander Veigar Þórarinsson (Grindavík)
Athugasemdir