
Varnarmaðurinn Anna Björk Kristjánsdóttir fagnaði góðum 4-0 sigri með Inter gegn Sampdoria í Seríu A í dag en það var ekki sama hátíðin hjá Alexöndru Jóhannsdóttur og stöllum í Fiorentina.
Anna Björk spilaði allan tímann í hjarta varnarinnar hjá Inter en liðið var að vinna annan leik sinn í röð í deildinni.
Inter er í 3. sæti deildarinnar með 25 stig, átta stigum á eftir Roma sem er á toppnum.
Roma gerði sér góða ferð til Flórens og vann þar 7-1 sigur á Fiorentina. Alexandra fór af velli á 77. mínútu en lið hennar spilaði manni færri allan síðari hálfleikinn.
Fiorentina er í 4. sæti með 25 stig, jafnmörg og Inter.
Berglind Rós Ágústsdóttir var þá í byrjunarliði Recreativo Huelva sem tapaði fyrir spænsku meisturunum í Barcelona, 3-0. Berglind fór af velli á 63. mínútu í fyrsta deildarleik sínum fyrir félagið frá því hún kom frá Örebro. Huelva er í 8. sæti spænsku deildarinnar með 17 stig.
Athugasemdir