Íslendingalið Halmstad náði í sinn fyrsta sigur í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld er það vann nýliða Öster, 1-0, á Örjans-leikvanginum í Halmstad.
Fyrir leikinn hafði Halmstad tapað báðum deildarleikjum sínum á meðan Öster hafði unnið einn og tapað einum.
Gísli Eyjólfsson byrjaði á miðsvæði Halmstad og átti frábæran leik og þá kom Birnir Snær Ingason inn af bekknum þegar tíu mínútur voru til leiksloka.
Sigurmarkið kom seint í uppbótartíma frá hinum 17 ára gamla Bleon Kurtulus sem lyfti þungu fargi af leikmönnum liðsins. Fyrstu stig Halmstad komin í hús en um helgina mætir liðið Íslendingaliði Norrköping.
Arnór Sigurðsson byrjaði á bekknum hjá Malmö en kom við sögu á 73. mínútu í markalausu jafntefli liðsins gegn AIK í Stokkhólmi. Malmö og AIK eru bæði með 7 stig.
Daníel Leó Grétarsson og Kristall Máni Ingason spiluðu báðir í 1-0 sigri SönderjyskE á Vejle í fallriðli dönsku úrvalsdeildarinnar. Daníel Leó spilaði allan leikinn í hjarta varnarinnar en Kristall Máni kom inn af bekknum þegar hálftími var eftir.
Sigurinn var gríðarlega mikilvægur í fallbaráttunni en liðið er nú með 23 stig í 10. sæti, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti þegar sjö leikir eru eftir. Liðið mætir næst Sævari Atla Magnússyni og félögum í Lyngby eftir þrjá daga í fallbaráttuslag.
Athugasemdir