KR lagði ÍA 2-1 í Pepsi-deild karla í kvöld. Sigur KR var sanngjarn en Skagamenn gerðu atlögu að því að jafna í lokin eftir að hafa minnkað muninn úr umdeildri vítaspyrnu. Stefán Logi Magnússon kýldi fyrirgjöf í burtu en fór svo í Albert Hafsteinsson sem kom á fleygiferð.
Lestu um leikinn: KR 2 - 1 ÍA
„Mér fannst Stefán (Logi Magnússon) kýla hann og svo skella þeir saman," sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, eftir leik.
„Svona er fótboltinn. Mér fannst við stýra leiknum þangað til að þeir minnka muninn í lokinn og vex ásmeginn síðustu fimm mínúturnar."
Willum reiknar ekki með frekari breytingum á leikmannahópi KR áður en félagaskiptaglugginn lokar á morgun.
„Við erum bara búnir að vera með athyglina og einbeitinguna á þessum leik. Við höfum verið að skoða í kringum okkur en það er ekkert í hendi. Ég á ekki von á því að það gerist mikið fyrir lokin," sagði Willum.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir